Einn lést í jarðskjálfta á Krít

27.09.2021 - 12:53
Mynd: EPA-EFE / ANA-MPA
Einn lést og að minnsta kosti ellefu slösuðust þegar snarpur jarðskjálfti reið yfir á grísku eyjunni Krít á Eyjahafi í morgun. Hann var fimm komma átta að stærð, að sögn jarðvísindastofnunarinnar í Aþenu.

 

Skjálftinn reið yfir þegar klukkan var sautján mínútur gengin í tíu í morgun að staðartíma. Upptök hans voru á tíu kílómetra dýpi, um 23 kílómetra suður af Heraklíon, höfuðborg eyjarinnar.

Sá sem lést var við vinnu í lítilli kirkju í þorpinu Arkalochori. Hún hrundi í skjálftanum. Öðrum manni sem var við vinnu í kirkjunni var bjargað ómeiddum úr rústunum. Ellefu þurftu að láta gera að sárum sínum á sjúkrahúsum. Enginn þeirra er alvarlega slasaður að sögn talsmanns almannavarna á Krít.

Á myndum gríska ríkissjónvarpsins má sjá að margar gamlar byggingar skemmdust í skjálftanum, einkum í Arkalochori og fleiri þorpum nálægt upptökum skjálftans. Nokkrir eftirskjálftar riðu yfir í morgun. Þeir kröftugustu voru 4,5 og 3,8 að stærð.

Margir íbúar Heraklíon og byggða í nágrenninu forðuðu sér út undir bert loft þegar stóri skjálftinn reið yfir. Foreldrar voru beðnir um að sækja börn sín í skóla. 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV