Bréf hækka verulega eftir kosningaskjálfta

27.09.2021 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,73 prósent það sem af er morgni. Sveinn Þórarinsson, hlutabréfagreinandi hjá Landsbankanum, segir úrslit alþingiskosninganna hafa mikil áhrif.

„Stjórnin hélt velli nokkuð örugglega. Það er búinn að vera ákveðinn kosningaskjálfti og væntingar um að það yrði erfitt að mynda ríkisstjórn. Svo sjá menn að það er ekki staðan eftir þessar kosningar. Markaðurinn er kannski aðeins að leiðrétta til baka ákveðnar lækkanir sem voru í síðustu viku,“ segir hann.

Síldarvinnslan hefur hækkað mest í dag, eða um 6,45 prósent. Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur hækkað um 5,93 prósent. Brim hefur hækkað um 5,45 prósent, Sjóvá um 4,44 prósent og Skeljungur og Festi um fjögur prósent. 

Kvika banki hækkar um 3,9 prósent, Arion banki um 3,63 prósent og Íslandsbanki um 3,77 prósent. Þá hækkar Icelandair um 1,71 prósent og Play hækkar um 3,3 prósent á First North markaðnum.

„Lækkanir í síðustu viku voru kannski ofgerðar. Þannig séð er þetta líka ekkert rosalega mikil velta þannig að það eru ekki allir á markaðnum á þessari skoðun. Menn reyna að stilla sig af og minnka áhættu og selja þá fyrir kosningar,“ segir Sveinn.

Hann segir erlend áhrif líka einhver. Til að mynda hafi úrslit kosninganna í Þýskalandi í gær verið betri hvað stöðugleika varðar en verstu spár gerðu ráð fyrir. Mestu máli skipta hins vegar kosningarnar hér heima en Sveinn segir of snemmt að segja til um hvort áfram megi búast við grænum tölum í Kauphöllinni.

„Það á bara eftir að ráðast. Ég er ekkert endilega viss. Auðvitað á ennþá eftir að ákveða stjórnarmyndunina. Hún er ekki búin og menn koma að borðinum með einhverjar hugmyndir. Það eru stór mál eins og sala á Íslandsbanka - það getur skipt máli hvernig menn ákveða að gera það - og auðvitað eitthvað varðandi sjávarútveginn, þannig að það er ennþá einhver óvissa eftir og flest félög eru ennþá á lægri gildum í dag en hæstu gildin voru í þessum mánuði,“ segir Sveinn.