Bíll í sjóinn á Ísafirði og foktjón í Bolungarvík

Myndir frá ísafirði 15. janúar 2020. Leitað eftir snjóflóðum
 Mynd: Kévin Dubois - Aðsend
Bíll fór í sjóinn á Ísafirði í morgun í krapa og hálku. Ökumanninn sakaði ekki. Björgunarsveit var kölluð út í Bolungarvík en þar fuku þakplötur og lausamunir fóru af stað. Norðan áhlaup gengur nú yfir vestanvert landið og mjög hvasst hefur verið á Vestfjörðum í morgun.

Það er vont veður á Vestfjörðum, stórhríð og vetrarfærð á fjallvegum, ófært er um Klettsháls og þæfingsfærð norður á Strandir.

Bíll í sjóinn í krapa og hálku

Bíll fór í Pollinn við Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði í morgun en ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í krapa og hálku. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Vestfjörðum var hann einn í bílnum og sakaði ekki. Lögreglan segir að vegfarandi, sem varð vitni að slysinu, hafi synt út að bílnum aðstoðað ökumanninn við að komast í land. Þá varð árekstur tveggja bíla innanbæjar á Ísafirði.

Björgunarsveit kölluð út í Bolungarvík

Björgunarsveitin Ernir á Bolungarvík var kölluð út upp úr átta í morgun en Birgir Loftur Bjarnason, formaður sveitarinnar, segir að þak hafði losnað af gömlu húsi og þurfti að strengja troll yfir þakið og fergja. Þá hafi garðskúr sprungið í rokinu og lausamunir farið af stað. Björgunarsveit var kölluð út til aðstoðar fólki á bíl í ófærð á Hellisheiði eystri um sexleytið í morgun og í gærkvöld þurfti að aðstoða fólk í bílum á Fróðárheiði.

Rafmagnstruflanir á Vestfjörðum 

Það hafa verið rafmagnstruflanir á Vestfjörðum í morgun. Rafmagnslaust er í Árneshreppi og þar er verið að leita að bilun. Þá eru rafmagnstruflanir á Drangsnesi og í Bjarnarfirði og einnig á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er vetrarfærð á flestum fjallvegum á öllu norðanverðu landinu, snjóþekja eða hálka og þæfingsfærð og greinilegt að veturinn er farinn að minna á sig. 

Appelsínugul viðvörun fyrir Breiðafjörð og Vestfirði

Gul viðvörun er á landinu öllu, ef Suðurland og Austfirðir eru undanskilin. Spáð er  hvössu veðri, slyddu eða snjókomu. Appelsínugul viðvörun er svo fyrir Breiðafjörð og Vestfirði. Við Breiðafjörð spáir norðvestan stormi eða roki með skafrenningi og lélegu skyggni, en norðvestan stórhríð og skafrenningi á Vestfjörðum. Varað er við hættu af foktjóni og vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með veðri og spá.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV