„Vinum mínum þakklátur að hafa ekki gefist upp á mér“

Mynd: Skjáskot / Grensáskirkja

„Vinum mínum þakklátur að hafa ekki gefist upp á mér“

26.09.2021 - 12:00

Höfundar

Séra Pálmi Matthíasson lætur af störfum um helgina eftir 32 ár í Bústaðakirkju. Hann þjónaði áður fyrir norðan og meðal annars í Grímeyjarkirkju og segir hann marga íbúa hafa grátið þegar hún varð eldi að bráð í vikunni. Hann hlakkar til að fá tíma til að hlúa að fjölskyldunni og hitta vini sína.

Séra Pálmi Matthíasson lætur formlega af störfum í dag, sunnudag eftir 32 ár í Bústaðakirkju. Hann var áður prestur á Akureyri og þjónaði meðal annars í Grímsey, þar sem hann starfaði í níu ár. Hann hafði miklar taugar til kirkjunnar og þótti afar sárt að sjá hana brenna.

„Þetta var gömul kirkja og það var mikið af handútskornum munum eftir Einar djákna. Þetta var mjög sérstök kirkja, hún var miðpunktur alls í eyjunni,“ segir Pálmi. Hann hefur rætt við vini sína í Grímsey og meðal þeirra er einn sem Pálmi lýsir sem sterkum og stórum manni, sem ekki bognar undan hverju sem er. „Hann sagði í gær: Þegar ég stóð fyrir framan kirkjuna að brenna þá grét ég. Grét eins og barn,“ segir hann. Þá fattaði ég hvað kirkjan var mikil í mínum huga og hvað þetta skipti miklu máli.“

Þessi tiltekni vinur kvaðst sjálfur ekki hafa verið duglegastur að mæta og hann sofnaði stundum þegar hann kom í kirkjuna, en á þessum tímapunkti skipti það ekki máli. „Kirkjan var honum ótrúlega kær og hann segir: Ég er búinn að vera ómögulegur maður síðan þetta gerðist.“

Að messa í Grímseyjarkirkju var yndislegt að sögn Pálma og oftast mættu allir íbúar eyjunnar, annars var presturinn látinn vita af forföllum. „Fólk lét sig varða kirkjuna og kirkjulífið. Það var yndislegt að koma þarna og alltaf ótrúlega skemmtilegt,“ segir hann. Íbúa segir hann ekki alltaf hafa verið sammála en að þau hafi verið sem ein fjölskylda sem stóð saman. „Þau voru eins traust og björgin í eyjunni.“ Og Pálmi segir það vilja þeirra að byggja kirkjuna upp aftur. „Þeir vilja það og ég er sannfærður um að það er fjöldi fólks víða um land sem vill leggja þessu máli lið. Grímsey er svo stór hluti af þjóðarsálinni og hefur alltaf verið.“

Í Bústaðakirkju starfaði Pálmi svo frá árinu 1989 og það var alltaf mikið ævintýri. „Ég er búinn að vera prestur í 44 ár rúm og þar af 32 hér,“ segir hann stoltur. Að flytja frá Akureyri lagðist misvel í fjölskylduna. „Þó merkilegt væri þá reyndist mér það held ég auðveldara en mæðgunum, þó svo konan mín sé úr Bústaðahverfinu því hún var búin að bindast sterkari böndum fyrir norðan en hún gerði sér grein fyrir,“ rifjar Pálmi upp. „Það voru ekki auðveld skipti og unglingurinn harðneitaði, ætlaði að búa áfram fyrir norðan hjá afa sínum og ömmu. En hún kom á endanum, sagðist aldrei ætla í Réttaholtsskóla en svo í huganum er Réttó besti skóli sem hún hefur verið í.“

Þó hann hafi hætt störfum í kirkjunni kveðst hann áfram munu mæta og njóta guðsþjónustunnar. „Þetta er mikill hluti af okkur sjálfum,“ segir hann. Það er hefð fyrir því í sókninni að fólk leggi hönd á plóg til að framkvæma hluti, byggja og lagfæra og það hefur myndast skemmtilegur andi í hópnum. „Þetta er sterkt samfélag og það er sterk sóknarvitund í prestakallinu sem nú er orðið stærra því að nú eru Bústaðasókn og Grensássókn komnar saman í eitt Fossvogsprestakall. Þetta er heilmikið starf að halda utan um.“

Pálmi var vinsæll prestur og hann gifti stundum mörg pör á dag. Fólk færði jafnvel brúðkaupsdaginn frá laugardegi yfir á föstu- eða sunnudag til að geta fengið Pálma. „Í allmörg ár var þetta svona hverja einustu helgi.“

Á döfinni hjá Pálma er að halda áfram að vera hann sjálfur og rækta sambandið við fjölskyldu og vini. Oft hafi vinahópurinn planað eitthvað fram í tímann en þegar eitthvað kom upp á, vinnutengt, voru vinirnir alltaf látnir sitja á hakanum, hann tekur starfið fram yfir flest annað. „Þetta er ekki þægilegt. Ég er vinunum þakklátur fyrir að hafa ekki gefist upp á mér, það skiptir miklu máli,“ segr hann. En hann mun aldrei hætta að vera prestur. „Maður er vígður í þetta hlutverk, en maður hættir að vera sóknarprestur og losnar þannig undan daglegum skyldum að halda utan um söfnuðinn, mæta í viðtalstíma og messa allar helgar og annað eftir því. Nú getur maður farið í messu og notið þess að vera bara kirkjugestur og það er alveg ný bóla því maður hefur messað hvern einasta dag árið um kring í öll þessi ár,“ segir hann.

Kveðjumessan verður í Bústaðakirkju í dag á sunnudag klukkan eitt.

Rætt var við séra Pálma Matthíasson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.