Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vinstri græn vilja endurtalningu í Suðurkjördæmi

26.09.2021 - 20:33
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Umboðsmaður Vinstri grænna sendi í kvöld formlega beiðni til yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi um endurtalningu atkvæða í alþingiskosningunum í gær. Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir að beiðnin verði tekin fyrir á fundi eftir hádegi á morgun.

„Við munum að sjálfsögðu taka beiðnina fyrir á formlegum fundi. Við náum ekki svoleiðis fundi fyrr en á morgun en þá tökum við ákvörðun,“ segir Þórir. Yfirkjörstjórnin hafi varla komist heim til sín síðan á föstudagskvöld og það sé ekki hlaupið að því að kalla hana saman fyrr en á morgun. 

Mjótt á munum milli Miðflokksins og Vinstri grænna

Finnst þér líklegt að þið teljið aftur?

„Ég get ekkert sagt um það fyrr en yfirkjörstjórn hefur fundað og tekið afstöðu til beiðninnar. Það lá fyrir í morgun að það munaði aðeins sjö atkvæðum á fulltrúum Vinstri grænna og Miðflokksins í kjördæminu. Af því tilefni hafði ég samband við Landskjörstjórn og þá kom í ljós að það væri mjótt á munum í fleiri tilvikum og það var ástæða fyrir að við fórum sérstaklega yfir okkar verkferla og gæðamál í dag. Við töldum þá skoðun sýna að það hefði allt verið með felldu hjá okkur í talningu og uppgjöri. Svo kom þessi beiðni fram í kvöld og við tökum afstöðu til hennar,“ segir Þórir.

Endurtalning fátíð

Endurtalning hefur ekki tíðkast á Íslandi og það vakti því mikla athygli í dag þegar atkvæði í Norðvesturkjördæmi voru talin aftur og leiddu í ljós misbresti sem höfðu þau áhrif að fimm þingmenn duttu út og fimm aðrir inn.

„Ég hef nú skoðað kosningalög og framkvæmd hér á Íslandi nokkuð vel og ég man ekki til þess, og það er klárlega ekki á síðari tímum sem það hefur verið farið í svona endurtalningu, ekki fyrr en í dag í Norðvesturkjördæmi. En það segir auðvitað ekkert til um það að slíkt sé útilokað. Og  mannleg mistök, hvort sem er á þessu sviði eða öðru eru aldrei útilokuð. Én gagnrýnin hugsun og traust á kosningum er það sem skiptir máli,“ segir Þórir.

Engar vísbendingar um villu

En þú hefur enga ástæðu til að ætla að það sé villa í þessu hjá ykkur?

„Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess. Það kemur ekkert fram í kröfunni sem fram hefur komið að það séu vísbendingar um það. Okkar gæðatékk í dag leiddi ekki í ljós neina misbresti. Það segir ekkert til um það að allt sé 100 prósent,“ svarar Þórir að lokum. 

Ólafur Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að hann teldi ekki ástæðu til að endurtelja atkvæðin á landsvísu, þrátt fyrir að í ljós hefðu komið misbrestir í talningu í Norðvesturkjördæmi.