„Við erum ekki að fara að vinna kosningasigur“

26.09.2021 - 00:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heyra mátti saumnál detta þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ávarpaði kosningavöku flokksins upp úr miðnætti.

Nú þegar fyrstu tölur hafa borist úr öllum kjördæmum er útlit fyrir að flokkurinn tapi um helmingi fylgis síns frá síðustu kosningum og fái engan þingmann kjörinn.

„Við erum ekki að fara að vinna stórkostlegan kosningasigur,“ sagði Sigmundur á kosningavökunni en hann segist þó fullviss um að flokkurinn muni ná mönnum á þing.

Þótt flokkurinn mælist ekki með neinn þingmann sem stendur, þarf ekki miklar sviptingar til að það gerist. Fylgi flokksins á landsvísu er nú 4,5% en fari flokkurinn upp í fimm prósent má hann vænta þess að fá þrjá jöfnunarþingmenn.

Þá er hugsanlegt að flokkurinn flokkurinn fái kjördæmakjörinn mann, til dæmis í sterku vígi á borð við Norðausturkjördæmi, án þess að ná fimm prósentum.

Of lítið rætt um pólitík

Sigmundur kennir því helst um að lítið hafi verið rætt um pólitík í aðdraganda kosninganna og raunar allt frá kosningum. „Þetta hafa verið mjög óvenjulegar aðstæður undanfarið eitt og hálft ár þar sem lítið hefur verið rætt um pólitík, eiginlega bara ekki neitt. Það hentar okkur afskaplega illa,“ sagði Sigmundur við Birtu Björnsdóttur fréttamann.

Sigmundur stappaði stáli í stuðningmenn og hét því að flokkurinn myndi áfram berjast fyrir skynsemishyggju í pólitík. Hlutverk flokksins yrði mikilvægara en nokkru sinni fyrr, hvort sem hann yrði í ríkisstjórn eða ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fylgi Miðflokksins samkvæmt fyrstu tölum
 

Reykjavík norður
Nýjustu tölur: 3,3% (0 þingmenn)
Síðustu kosningar: 7,0% (0 þingmenn)

Reykjavík suður
Nýjustu tölur: x% (0 þingmenn)
Síðustu kosningar: 7,6% (1 þingmaður)

Suðvesturkjördæmi
Nýjustu tölur: 3,4% (0 þingmenn)
Síðusu kosningar: 9,5% (1 þingmaður)

Suðurkjördæmi
Nýjustu tölur: 6,3% (0 þingmenn)
Síðustu kosningar: 14,3% (1 þingmaður)

Norðvesturkjördæmi
Nýjustu tölur: 5,8% (0 þingmenn)
Síðustu kosningar: 14,2% (2 þingmenn)

Norðausturkjördæmi
Nýjustu tölur: 6,4% (0 þingmenn)
Síðustu kosningar: 18,6% (2 þingmenn)

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV