Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Valskonur sigu fram úr undir lokin

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valskonur sigu fram úr undir lokin

26.09.2021 - 20:27
Annari umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta lauk nú undir kvöld með einum leik. Í honum tók HK á móti Val, í Kórnum í Kópavogi. HK hélt í við sterkt lið Vals framan af en Valur var of stór biti í seinni hálfleik.

 

HK var án stiga fyrir leikinn í dag, en Valskonur höfðu tvö stig og gátu því með sigri komist á topp deildarinnar með jafn mörg stig og KA/Þór. Leikurinn var í járnum þar til í stöðunni 5-5 að Valur náði undirtökunum í leiknum. Valskonur voru einu til fjórum mörkum yfir það sem eftir lifði af fyrri hálfleik og þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-9.

Munurinn hélst svipaður lengst af í seinni hálfleiknum, en á síðustu mínútum leiksins bætti Valur enn frekar við forskot sitt. Svo fór að Valur fagnaði sex marka sigri, 23-17. Valur er því á toppnum í deildinni eftir fyrstu tvær umferðirnar, með fjögur stig, en betri markatölu en Íslandsmeistarar KA/Þórs sem einnig hafa fjögur stig. Við tekur nú þriggja vikna hlé á deildinni, þar sem úrslitin í bikarkeppninni ráðast um næstu helgi, og svo spilar íslenska landsliðið tvo leiki í undankeppni EM aðra helgina í október.