Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stjórnarflokkarnir með 39 þingsæti

26.09.2021 - 01:52
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ríkisstjórnin styrkir sig til muna í kosningunum eins og staðan er þegar 89 þúsund atkvæði hafa verið talin. Stjórnarflokkarnir fara úr 35 þingsætum í síðustu kosningum, sem fækkaði í 33 við brotthvarf tveggja þingmanna Vinstri grænna, í 39 núna. Sigmundur Davíð er eini þingmaður Miðflokksins á nýju kjörtímabili eins og staðan er núna en sáralitlu munar að flokkurinn fái jöfnunarþingsæti, raunar aðeins 0,0006 prósentum.

Sjálfstæðisflokkurinn fær sautján þingsæti í stað sextán í síðustu kosningum þrátt fyrir að fylgið minnki úr 25,3 prósentum í 23,9 prósent. Framsóknarflokkurinn bætir við sig heilum fimm þingsætum, úr átta í þrettán og eykur fylgið úr 10,7 prósentum í 17,1 prósent. Vinstri græn eru eini stjórnarflokkurinn sem tapar milli kosninga fer úr 16,9 prósentum og ellefu þingmönnum í 13,9 prósent og níu þingsæti.

Miðflokkurinn setti met í síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk 10,9 prósent og sjö þingmenn, bestu kosningu nýs flokks. Nú er flokkurinn hins vegar alveg á mörkum þess að fá fimm prósent sem þarf til að fá uppbótarþingmenn, með 4,9994 prósent. Samkvæmt nýjustu tölum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, þó eini þingmaður flokksins.

Samfylkingin fer úr 12,1 prósenti í 10,3 prósent og heldur sínum sjö þingsætum. Píratar tapa einu þingsæti og fara úr 9,2% í 8,0%. 

Flokkur fólksins er sigurvegari stjórnarandstöðunnar í kosningunum eins og staðan er núna. Fer úr 6,9 prósentum og fjórum þingsætum í síðustu kosningum í 9,4 prósent og sex þingsæti. 

Viðreisn bætir við sig einu þingsæti með 7,6 prósent atkvæða samanborið við 6,7 prósent síðast.

Sósíalistaflokkurinn mælist með 3,7 prósent og nær ekki inn á þing eins og staðan er núna.

Hvorki Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (0,3%) né Ábyrg framtíð (0,1%) hlýtur hljómgrunn meðal kjósenda.

Fréttin var uppfærð 2:27 eftir nýjar tölur úr Suðvesturkjördæmi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV