Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í Reykjavík norður

26.09.2021 - 04:55
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn naut mest fylgis allra flokka í Reykjavík norður, öðru kjördæminu þar sem talningu allra atkvæða lauk í nótt. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru einu flokkarnir sem fengu tvo kjördæmasæti í Reykjavík norður.

35.728 greiddu atkvæði í Reykjavík norður.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 20,9 prósent atkvæða og tvo kjördæmakjörna þingmenn, þau Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Dilja Mist Einarsdóttur, aðstoðarmann hans. Samkvæmt síðustu tölum var Brynjar Níelsson inni í jöfnunarsæti. 

Vinstri græn fengu 15,9 prósent í Reykjavík norður og þær Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Steinunni Þóru Árnadóttur þingmann kjördæmakjörnar. 

Píratar fengu 12,8 prósent og einn kjördæmakjörinn þingmann, Halldóru Mogensen. Að auki var Andrés Ingi Jónsson í jöfnunarsæti samkvæmt síðustu tölum.

Samfylkingin hlaut 12,6 prósent atkvæða og Helgu Völu Helgadóttur kjördæmakjörna. Ásmundur Einar Daðason, barna- og félagsmálaráðherra, var kjördæmakjörinn fyrir Framsóknarflokkinn sem fékk 12,3 prósent atkvæða. Viðreisn og Flokkur fólksins fengu 7,7 prósent atkvæða og sitt hvorn kjördæmakjörinn þingmanninn, Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur (C) og Tómas Andrés Tómasson, Tomma í Hamborgarabúllu Tomma, (F). 

Sósíalistaflokkur Íslands fékk 5,6 prósent atkvæða í Reykjavík norður en það dugði ekki til þingsætis. Ekki heldur 3,5 prósentin sem Miðflokkurinn fékk og 0,4 prósentin sem Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og Ábyrg framtíð fengu.

Kjördæmakjörnu þingmennirnir eru öruggir með sæti á Alþingi á nýju kjörtímabili en örlög þingmanna í jöfnunarsætum ráðast ekki fyrr en síðasta atkvæðið á landinu hefur verið talið.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV