Safnaði skeggi í sorgarferli Tvíhöfða

Mynd:  / 

Safnaði skeggi í sorgarferli Tvíhöfða

26.09.2021 - 14:00

Höfundar

Þeir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson upplifðu hálfgert tilfinninga-tómarúm þegar útvarpsþátturinn Tvíhöfði var settur af dagskrá Rásar 2. Jón segist hafa upplifað ákveðið sinnuleysi í kjölfarið. Hann hætti að baða sig og fór að safna skeggi.

Skeggvöxtur þeirra Jóns og Sigurjóns hefur vakið athygli þeirra sem séð hafa til félaganna að undanförnu. Sigurjón hefur um dágóðan tíma skartað prýðisgóðu skeggi en Jón hefur sjaldan lagt í að safna. „Ég var mjög spenntur fyrir þessu 18 ára. Að ég gæti verið með skegg. Mér fannst þetta spennandi og kepptist við að raka mig til að ná skeggvexti. Síðan varð þetta að leiðinlegri kvöð að þurfa að raka sig. Ég var farinn að trassa það þannig að konan mín er farin að segja við mig: „Viltu ekki fara að raka þig?” Mér fannst þetta leiðinlegt en fann aldrei hvöt til að safna skeggi,” segir Jón.

Jón segir að upphaf skeggsöfnunarinnar megi rekja til þessa að Tvíhöfði hætti í útvarpinu í sumar og óvissa var um framhaldið. „Það var ákveðið sorgarferli,” segir Jón. Eftir að þátturinn hætti upplifðu þeir báðir depurð og þá sérstaklega þar sem þeim fannst almenningur fagna því að þátturinn hefði lokið göngu sinni. „Þá langar mann ekki til að raka sig,” segir Sigurjón.

„Það var einhver trassaskapur og leti. Ég þreif mig ekki, ég borðaði ekki,” segir Jón sem segist þó ekki hafa grátið sig í svefn á nóttunni, heldur vakti hann. Hann grét sig þó í svefn á daginn að eigin sögn. Einn daginn kom maður upp að Jóni og benti honum á að hann væri kominn með heilmikið skegg. Hann hafði þá ekki áttað sig á því sjálfur. „Ég uppgötvaði líka að með því að vera með skegg þá sleppur þú við allt þetta vesen að vera að raka þig. Ég heillaðist af því. Ég þarf ekki að raka mig. Ég þarf ekki að standa í þessu veseni,” segir Jón. Sigurjón benti Jóni einnig á að skeggvöxturinn stafaði líka af því að þeir hefðu ekki efni á að kaupa sér rakvélablöð á meðan að Tvíhöfði var ekki í útvarpinu. 

Ýmsar kvaðir geta þó fylgt skegginu og en Jón fékk góð ráð í skemmtiferð í Antwerpen í Belgíu. „Partýborgin. Það var svo margt að gera ,þannig að ég vissi ekki hverju ég átti að byrja á. Þannig að ég googlaði skeggsnyrtistofu og fann skeggsnyrtistofu. Hafði samband og fékk tíma. Þar fór ég til klippara sem er skeggklippari. Hann sagði við mig: „Þú ert búinn að safna í 3-4 mánuði en hefur ekkert snyrt neitt?” Hann tók einhverja angalýjur og sagði svona væri alveg bannað. Hann bauðst til að taka þær og snyrti svo allt skeggið. Síðan gaf hann mér eitthvað feiti til að bera í skeggið. Annars yrði það of þurrt og ég myndi fá þurrkubletti í húðina,” segir Jón.

Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson ræddu skeggvöxt sinn nokkuð ítarlega í nýjasta þætti Tvíhöfða sem hóf göngu sína á ný á Rás 2 á sunnudagskvöld.