Reykjavík suður fyrst til að klára talningu

26.09.2021 - 04:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Talningafólk í Reykjavík suður var það fyrsta til að ljúka talningu í þingkosningunum í ár. Þar greiddi 36.201 kjósandi atkvæði. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn í kjördæminu sem bætir við sig fylgi milli kosninga svo um munar. Miðflokkurinn og Vinstri græn eru einu flokkarnir sem tapa atkvæðum að ráði milli kosninga.

Sjálfstæðisflokkurinn (22,8%) er stærsti flokkurinn í kjördæminu og fær þrjá kjördæmakjörna þingmenn, þau Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Hildi Sverrisdóttur og Birgi Ármannsson.

Vinstri græn fá 14,7 prósent og einn þingmann, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Samfylkingin fær 13,3 prósent og Kristrúnu Mjöll Frostadóttur kjördæmakjörna. Framsóknarflokkurinn fær 11,5 prósent og Lilju Dögg Alfreðsdóttur menntamálaráðherra á þing. Píratar fá 10,9 prósent og Björn Leví Gunnarsson á þing. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins (8,9%) er kjördæmakjörinn sem og Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar (8,6%). Sósíalistaflokkurinn fær 4,8 prósent en engan þingmann. Miðflokkurinn fær 4,1 prósent og engan kjördæmakjörinn þingmann. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn fær 0,4 prósent.

Mynd með færslu
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV