Leiðtogarnir ætla að ræða saman en slá þó varnagla

26.09.2021 - 12:45
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í leiðtogaumræðum í Silfrinu í dag að það blasi við að núverandi ríkisstjórn ræði saman um áframhaldandi samstarf. Nýjar kosningar marki þó alltaf nýtt upphaf og það þurfi allir flokkar að ræða sín á milli.

Katrín sagði marga hafi spáð því að fyrri ríkisstjórnarmyndun myndi tortíma hennar flokki, Vinstri Grænum. Hún segir ljóst að þær spár hafi ekki ræst og sagðist „mjög stolt af sínu fólki.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók fram að ekki væri sjálfsagt að fyrri ríkisstjórnarflokkarnir myndi nýja ríkisstjórn. Hann sé þó bjartsýnn og reyni að vera lausnamiðaður. Hann sagðist ekki endilega krefjast þess að verða forsætisráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði traust hafa ríkt milli fyrri ríkisstjórnarflokka og mikilvægt að það væri haft í huga. Pólitík sagði hann ekki bara „stefnu, heldur vinnubrögð og heilindi.“ Þó flokkarnir séu ólíkir þá hafi gengið vel að komast að málefnanlegum niðurstöðum á fyrra kjörtímabili.

Af stjórnarandstöðunni sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, meðal annars skoðanakannanir ekki endilega ná eins vel til kjósendahóps Flokks fólksins og að það skýri gott gengi flokksins, langt umfram það sem spáð var.

„Ég sé þetta ekki sem annað en stöðnun,“ segir Halldóra Mogensen, formaður Pírata. Hún sagði niðurstöðu kosninganna vonbrigði og taldi mögulega skýringu að fólk sé, eftir heimsfaraldur og óvissu, að sækja í stöðugleika og öryggi með atkvæðum sínum og kjósi því eldri flokkana sem það þekki.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segist bjartsýnn þó þeim hafi ekki gengið eins vel og þau vonuðust til. „Þessi heiði sem við erum að fara yfir er aðeins torfærari en við reiknuðum með. En við erum hins vegar fullviss um það að þetta muni hafast á endanum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist sjaldan hafa tekið þátt í jafn fjölbreyttri kosningabaráttu og segir að ungt fólk hafi flykkst að flokknum vegna stefnu þeirra í loftslagsmálum. Fyrir það segist hún mjög þakklát, en hafði þó enga síður vonast eftir meira fylgi.