Hélt að hann flytti síðastur úr Grímsey

Mynd: Rúv / Rúv

Hélt að hann flytti síðastur úr Grímsey

26.09.2021 - 18:16

Höfundar

„Auðvitað er þetta rosalega erfitt. Ég er viss um að ég eigi eftir að brotna einhverntímann saman yfir þessu,“ segir Sigurður Bjarnason Grímseyingur sem er nú að pakka saman eigum sínum og flytja upp á land. „Þetta er bara orðið ágætt, ég er orðinn fullorðinn og það er bara gaman að breyta til,“ segir hann.

Sigurður hefur rekið verkstæði í Grímsey síðustu áratugina auk þess að sjá um olíudreifingu, snjómokstur og að halda dísilrafstöðinni fyrir eyjuna gangandi. Hann er fæddur og uppalinn í Grímsey og þótt hann hafi horft upp á fólksfækkun í eynni hefur honum aldrei áður dottið í hug að fara.

„Ég hélt ég dræpist hérna.“ segir hann og kveðst hafa verið búinn að lofa því að fara síðastur ef byggðin legðist af og slökkva á ljósavélinni.

Rætt verður við Sigurð í Landanum í kvöld og fjallað um það þegar lítil eyjasamfélög standa á krossgrötum.