Gerir ráð fyrir að snúa sér aftur að bókmenntunum

26.09.2021 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta eru vonbrigði. Ég taldi mig hafa ástæðu til að ætla að þetta myndi ganga og skoðanakannanir bentu til þess að þetta væru svona helmingslíkur eða jafnvel rúmlega það,“ segir Guðmundur Andri Thorsson sem var í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og var ekki endurkjörinn.

Samfylkingin fékk 8,10 prósent atkvæða í Kraganum og einn þingmann kjörinn, Þórunni Sveinbjarnardóttur. „Þegar maður fer í pólitík býr maður sig alltaf undir vonbrigði og það er bara partur af þessu. Maður tekur því,“ segir Guðmundur.

Hann segir ekki liggja fyrir hvað taki nú við hjá honum. „Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef starfað við bókaútgáfu og við bókmenntir og ætli ég fari ekki út í eitthvað slíkt. Ég reikna með því,“ segir Guðmundur.

Nokkur fjöldi þingmanna sem sóttust eftir endurkjöri náðu ekki inn á þing í gær. Auk Guðmundar má nefna Brynjar Níelsson þingmann Sjálfstæðisflokks, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur þingmann Vinstri grænna, Bergþór Ólason, þingmann Miðflokksins, Ólaf Þór Gunnarsson, þingmann Vinstri grænna og Jón Steindór Valdimarsson þingmann Viðreisnar.