Fyrstu tölur: Stjórnin heldur velli - Miðflokkurinn úti

26.09.2021 - 00:18
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórnin heldur velli og rúmlega það ef marka má fyrstu tölur úr öllum kjördæmum. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur bæta miklu við sig og Flokkur fólksins kemur sérfræðingum á óvart. Miðflokkurinn, sem hlaut glæsilega kosningu fyrir fjórum árum, er dottinn út af þingi og Samfylkingin tapaði einum þingmanni frá síðustu kosningum. Sjö flokkar ná kjöri en ekki níu eins og kannanir höfðu bent til.

Sérfræðingarnir voru á einu máli um að of snemmt  væri að rýna mikið í fyrstu tölur. Því eins og forsætisráðherra benti á í ræðu sinni; kosninganótt væri mesta frasakvöld ársins og nóttin væri ung.

Fyrstu tölurnar komu úr Norðvesturkjördæmi og þær slógu svolítið taktinn fyrir það sem var í vændum. Framsókn bætti verulega við sig og Flokkur fólksins kom sérfræðingum í opna skjöldu með góðri kosningu.  Sjálfstæðisflokkurinn styrkti síðan verulega stöðu sína sem stærsti flokkurinn á Alþingi.

Þegar fyrstu tölur voru komnar í öllum kjördæmum voru ríkisstjórnarflokkarnir með nokkuð öruggan meirihluta á þingi eða 39 þingmenn.  Framsóknarflokkurinn bætti við sig þremur, fór úr 8 þingmönnum í 11 og það sama gerði Sjálfstæðisflokkurinn, færi úr 16 í 19 þingmenn.

Vinstri hreyfingin grænt framboð, flokkur forsætisráðherra, tapaði tveimur þingmönnum frá síðustu kosningum en hélt þeim 9 þingmönnum sem eftir voru í flokknum eftir að Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson sögðu skilið við flokkinn.  

Ein stærstu tíðindin voru að Miðflokkurinn, sem hlaut glæsilega kosningu fyrir fjórum árum, var dottinn út af þingi. Og að Flokkur fólksins fengi sjö þingmenn. Það yrði talsverð breyting á þingflokki flokksins sem í voru aðeins tveir þingmenn þegar gengið var til kosninga.  

Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir bættu ekki miklu við sig;  Samfylkingin tapaði tveimur og var með sex þingmenn, Píratar töpuðu einum, fóru úr sjö þingmönnum í sex en Viðreisn bætti við sig einum þingmanni, fór úr fjórum þingmönnum í fimm.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV