Einungis fleiri þingkonur í Rúanda og á Kúbu

26.09.2021 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ísland varð í gær fyrsta ríkið í Evrópu þar sem konur eru í meirihluta á þingi. 33 konur náðu kjöri í þingkosningunum í gær og 30 karlmenn. Rúmlega 52 prósent þingmanna verða því konur.

Fimm önnur ríki eru nú með konur í meirihluta á þingi. Um 61 prósent þingmanna í Rúanda eru konur, um 53 prósent í Kúbu, 51 prósent í Níkaragva og fimmtíu prósent í Mexíkó og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Þetta er í fyrsta sinn sem konur eru fleiri en karlar á Alþingi. Á nýliðnu Alþingi sátu tuttugu og fjórar konur og fjölgar þeim því verulega.

Einungis einn þingflokkur er hreinn karlaflokkur, það er Miðflokurinn, minnsti flokkurinn á þingi með þrjá þingmenn.  Á hinum kantinum er Samfylkingin, en af sex þingmönum flokksins er aðeins einn karl, formaðurinn Logi Einarsson. Hjá Vinstri grænum, Pírötum, Flokki fólksins og Viðreisn eru konur í meirihluta en í þingliði Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eru karlarnir fleiri.