Bitnar á fátækum konum

26.09.2021 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: CBS
Eftir að umdeild lög um þungunarrof tóku gildi í Texas í byrjun þessa mánaðar hafa margar konur farið yfir fylkismörkin til Oklahoma. Þungunarrof er óheimilt í Texas eftir 6 vikna meðgöngu.

Í einni af fjórum læknastofum sem framkvæma þungunarrof í Oklahoma eru að minnsta kosti tveir þriðju kvenna sem koma frá Texas segir í frétt New York Times. Aðsóknin er svo mikil að fyrirtækið þarf að ráða fleiri lækna og heilbrigðisstarfsmenn.

„Það eru allar línur rauðglóandi," er haft eftir Jennifer Reince sem vinnur í móttöku hjá Trust Woman heilsugæslunni í Oklahoma. Þungaðar konur hafa þurft að ferðast langan veg frá Texas í nærliggjandi fylki. Fjölskyldur eiga erfitt með að skipuleggja barnapössun og fjarveru frá vinnu segir Marva Sadler, yfirmaður hjá Whole Woman's Health sem rekur fjórar heilsugæslustöðvar í Texas.

Daginn áður en lögin í Texas tóku gildi fór Samerah í ómskoðun á sjúkrahús í fylkinu. Hún var komin 5 vikur á leið og vissi að lögin tækju gildi daginn eftir. Læknirinn sem framkvæmdi ómskoðunina fann engan hjartslátt og sagði henni að koma í aðgerð daginn eftir.  Hinn 22 ára Samerah fékk aðra niðurstöðu þegar hún hélt að hún væri á leið í aðgerðina. Læknirinn sagði að nú finndi hann greinilegan hjartslátt og ekkert varð af þungunarrofinu. Samerah segist hafa hitt grátandi konur á sjúkrahúsinu sem voru í sömu stöðu og hún.

Hún fór með kærasta sínum og tveggja ára syni þeirra til  Beaumont í Oklahoma þar sem þungunarrofið var framkvæmt. Það hafði ekki staðið til að fjölga i fjölskyldunni. Þau höfðu flutt úr foreldrahúsum í eigið húsnæði, voru bæði í vinnu og ætluðu að búa ungum syni þeirra góða framtíð. Þess vegna var fjölgun í fjölskyldunni ekki á dagskrá. Samerah segir í samtali við New York Times að hún hafi farið í þungunarrof einu sinni áður, ári eftir að sonur þeirra fæddist. 

Hertar reglur bitna harðast á fátækum konum að því er kemur fram í rannsókn Guttmacher Institute. Helmingur bandarískra kvenna sem fór í þungunarrof bjó við fátækt að því er kemur fram í rannsókn sem gerð var á árunum 2008-2014, tvöfalt fleiri en samkvæmt könnun frá 1994. Kostnaður við þungunarrof eykst eftir því sem líður á meðgönguna. Hjá Trust Women heilsugæslunni kostar 650 bandaríkjadali að framkvæma þungunarrof snemma á meðgöngu en ef aðgerðin er gerð síðar kostar hún 2,350 bandaríkjadali. Vegna þeirra fjölmörgu kvenna sem koma til Oklahoma frá Texas eru sjúkrahúsin sem framkvæma þungunarrofin bókuð fram í miðjan október. 

 

Arnar Björnsson