„Árangurinn í nótt var stórkostlegur"

Mynd með færslu
 Mynd: Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn bætti við sig rúmlega ellefu prósentum í Norðausturkjördæmi. Það er mesta fylgisaukning í kosningum gærdagsins. Oddvitanum finnst ekki óeðlilegt að Framsóknarflokkurinn geri tilkall til að fá forsætisráðherraembættið.

Framsóknarflokkurinn bætti við sig þingmanni í öllum þremur landsbyggðarkjördæmunum og hefur núna þrjá þingmenn í þeim öllum. Í fyrsta sinn frá 2013 á flokkurinn þingmenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. 

Ingibjörg Ólöf Ísaksen er oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi. „Markmiðið var að ná þremur þingmönnum og við náðum því. Það er stórkostlegt að fara úr 14,3% í rúmlega 26%. Við erum í skýjunum yfir því," segir Ingibjörg Ólöf Ísaksen.   Í kosningum 2017 tapaði flokkurinn tæpum 6% en hélt sínum tveimur þingmönnum. Árangurinn núna er því glæsilegur, fjórði maður á lista flokksins í kjördæminu var næsti maður inn.  Finnst þér að flokkurinn eigi að gera kröfu um að formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson verði næsti forsætisráðherra? Mér finnst það ekki óeðlilegt, umboðið er skýrt og árangurinn í nótt var stórkostlegur."  

Ingibjörg er framkvæmdastjóri hjá Læknastofum Akureyrar og ætlar að ljúka þeim verkefnum áður en hún tekur flytur suður. Hún er einnig bæjarfulltrúi á Akureyri. „Ég hef alltaf ætlað mér að búa hér á Akureyri og fara bara á milli vera landsbyggðarþingmaður svo fólk geti leitað til okkar. Mér finnst það mjög mikilvægt."     
 

Arnar Björnsson