Tveggja ára Texasbúi lést eftir slysaskot

25.09.2021 - 00:58
Mynd með færslu
 Mynd: Aliengear-holsters - Rúv
Tveggja ára drengur í Texas í Bandaríkjunum lést í gær eftir að skot hljóp úr byssu sem hann fann í bakpoka fjölskyldumeðlimar. Að sögn AFP fréttastofunnar hljóp skotið í höfuðið á drengnum og var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. 

Slysaskotið er eitt fjölmargra þar sem börn verða sjálfum sér eða öðrum að voða með skotvopnum í Bandaríkjunum. Samtökin Everytown for Gun Safety segja að 765 hafi dáið og yfir 1.500 særst frá árinu 2015 til 2020 vegna slysaskota barna. Það sem af er ári hafa yfir hundrað látið lífið. Samtökin, sem berjast fyrir auknu eftirliti með skotvopnum í Bandaríkjunum, segja slys af þessu tagi sorglegan hluta byssuofbeldis-faraldurs í landinu.

Alls deyja um 40 þúsund manns í Bandaríkjunum á ári hverju af völdum skotsára, samkvæmt vefsíðunni Gun Violence Archive sem heldur utan um upplýsingar af því tagi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV