Þrjátíu ára bið Víkinga á enda?

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Þrjátíu ára bið Víkinga á enda?

25.09.2021 - 10:46
Lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu fer fram í dag og er það Víkingur Reykjavík sem er með pálmann í höndunum fyrir leiki dagsins. 30 ár eru liðin frá síðasta Íslandsmeistaratitli Víkinga og dagurinn í dag gæti því orðið sögulegur.

Síðast þegar Víkingur varð Íslandsmeistari var leikið í Garði en í dag getur liðið orðið Íslandsmeistari á heimavelli fyrir framan allt að 2.200 manns. Í Garði komust heimamenn í Víði 1-0 yfir árið 1991 en Víkingar unnu að lokum 3-1, ýmislegt getur þó gerst í lokaumferðinni í dag, þó eru einungis tvö lið sem geta staðið uppi sem Íslandsmeistarar þegar flautað verður til leiksloka í deildinni um klukkan 16:00 í dag.

Hraðpróf verða nauðsynleg til að komast inn á völlinn í Víkinni í dag og er það gert til að koma fleirum á pallanna og verða vitni af þessum stórviðburði takist Víkingum að vinna Leikni Reykjavík og hampa Íslandsmeistaratitlinum. Á sama tíma í Kópavogi fer fram Kópavogsslagur milli Breiðabliks og HK á Kópavogsvelli, þar þurfa Blikar að treysta á óvænt úrslit í Víkinni til að bikarinn endin í Kópavoginum. Víkingum dugir ekkert annað en sigur fari það svo að Breiðablik vinni HK, eitt stig skilur liðin að en Breiðablik er með töluvert betri markatölu.

Á botni deildarinnar er sömuleiðis mikil spenna, þar geta enn nokkur lið fallið niður um deild. Þau lið sem eru í baráttunni þar eru HK, ÍA og Keflavík. ÍA þarf nauðsynlega á sigri að halda en liðið er sem stendur í næst neðsta sæti deildarinnar með 18 stig, tveimur stigum á eftir HK sem er með 20 stig, Keflavík er svo þar fyrir ofan með 21 stig en Fylkir er þegar fallið í 1.deild.

Leikir dagsins:
Víkingur – Leiknir Reykjavík

Breiðablik – HK

KA – FH

Stjarnan – KR

Keflavík – ÍA

Fylkir – Valur