Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þegar Víkingur og Blikar urðu síðast Íslandsmeistarar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Þegar Víkingur og Blikar urðu síðast Íslandsmeistarar

25.09.2021 - 11:59
Úrslitin ráðast á Íslandsmóti karla í fótbolta í dag. Lokaumferðin fer fram klukkan 14:00 og því ætti að koma í ljós rétt fyrir klukkan fjögur hvort það verði Víkingur eða Breiðablik sem verði Íslandsmeistari.

Víkingur hefur 45 stig fyrir lokaumferðina og mætir Leikni. Breiðablik er í 2. sæti með 44 stig og tekur á móti HK. 11 ár eru síðan Blikar urðu síðast Íslandsmeistarar en 30 ár frá því Víkingur vann Íslandsmeistarabikarinn síðast.

Víkingur Íslandsmeistari 1991

Víkingur varð Íslandsmeistari á markatölu 1991. Víkingur endaði með 37 stig rétt eins og Fram. Víkingur vann Víði í Garði, 3-1 í lokaumferðinni á meðan Fram sigraði ÍBV 3-0. Víkingur endaði með 15 mörk í plús en Fram með 14 mörk í plús. Dramatíkin var mikil í Garðinum laugardaginn 14. september 1991 eins og má sjá í meðfylgjandi myndskeiði. Jón Óskar Sólnes lýsti leiknum.

Mynd: RÚV / RÚV
Hér má sjá þegar Víkingur varð Íslandsmeistari 1991.

Breiðablik Íslandsmeistari 2010

Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn árið 2010. Það gerðist laugardaginn 25. september (sem er akkúrat dagsetningin í dag). Blikar tryggðu sér titilinn með markalausu jafntefli við Stjörnuna í lokaumferðinni. Það var nóg fyrir Blika sem enduðu þó með jafn mörg stig og FH sem varð í 2. sæti. Bæði lið fengu 44 stig en Blikar voru með 24 mörk í plús en FH 17 mörk í plús. Sjá má þegar Blikar urðu Íslandsmeistarar 2010 í meðfylgjandi myndskeiði. Adolf Ingi Erlingsson talaði inn á leikskýrslu markaþáttarins Íslenska boltans.

Mynd: Íslenski boltinn / RÚV
Hér má sjá þegar Breiðablik varð Íslandsmeistari 2010.