Stjórnandi í Huawei laus úr haldi í Kanada

25.09.2021 - 01:31
epa09486593 Meng Wanzhou (C) leaves British Columbia Supreme Court and speaks to the media in Vancouver, British Columbia, Canada 24 September 2021. Meng is reportedly appearing virtually in US court from Canada to plead in connection with a case in which the United States has seeking her extradition for since she was detained in December 2018. The case relatees to accusations that Huawei had tried to steal US technology and had lied about its relationship with an Iranian subsidiary.  EPA-EFE/BOB FRID
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Meng Wangzhou, stjórnanda hjá kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei, var sleppt úr stofufangelsi í Kanada í gærkvöld. Framsalskrafa Bandaríkjanna var dregin til baka eftir að Meng náði samkomulagi við þarlenda saksóknara. Hún fór skömmu síðar á flugvöll í Kanada og er á leiðinni til Kína að sögn AFP fréttastofunnar. Tveimur Kanadamönnum verður á móti sleppt úr haldi í Kína.

Meng var handtekin í Kanada fyrir um þremur árum að beiðni bandarískra yfirvalda. Hún var í stofufangelsi í Kanada á meðan hún barðist gegn framsalskröfu Bandaríkjanna. Þar beið hennar ákæra vegna viðskipta dótturfyrirtækis Huawei í Íran í trássi við alþjóðlegt viðskiptabann gegn ríkinu.

Vonir kanadískra yfirvalda til þess að lausn Meng greiddi leið þeirra Michael Spavor og Michael Lustig úr fangelsi í Kína rættust. Þeir voru teknir höndum í Kína nokkrum dögum eftir að Meng var handtekin í Kanada. Kínversk yfirvöld sögðust gruna viðskiptamanninn Spavor og fyrrverandi diplómatann Kovrig um njósnir. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði þá nú lausa úr haldi og á leið heim.

Mál Meng leiddi til mikilla deilna á milli Kína annars vegar og Bandaríkjanna og Kanada hins vegar. Kínverjar sökuðu Bandaríkjamenn um pólitíska árás á einn af tæknirisum Asíu. Þá sökuðu stjórnvöld í Peking Kanadamenn um að ganga erinda Bandaríkjamanna með handtöku Meng.

Fyrr í gær náðu saksóknarar í Bandaríkjunum samkomulagi við Meng um undirritun yfirlýsingar varðandi efni málsins. Í staðinn sættust þeir á að draga ákærur til baka fram til fyrsta desember á næsta ári, og fella þær niður ef Meng gengst við skilyrðum yfirlýsingarinnar.