Sigur Bidens í Arizona staðfestur í fjórða sinn

Joe Biden Bandaríkjaforseti flytur ávarp.
 Mynd: EPA
Endurtalning atkvæða í bandarísku forsetakosningunum í Arizona staðfesti að Joe Biden hafi hlotið fleiri atkvæði í Maricopasýslu heldur en Donald Trump. Þetta kemur fram í drögum fyrirtækisins Cyber Ninjas sem sá um talninguna að beiðni hóps úr Repúblikanaflokknum.

Fyrirtækið sem fengið var til verksins er veföryggisfyrirtæki. Það hefur enga reynslu í atkvæðatalningu að sögn AFP fréttastofunnar. Jack Sellers, formaður Repúblikanaflokksins í Arizona, sagði niðurstöðu endurtalningarinnar sýna að talningarvélarnar hafi sinnt sinni vinnu vel, og nú ætti þessu að vera lokið. 

Trump og stuðningsmenn hans beindu sjónum sínum sérstaklega að Arizona í ásökunum sínum um að svik hafi verið í tafli í forsetakosningunum. Allt frá því hann vék úr embætti í janúar hefur hann reynt að grafa undan kosningakerfi Bandaríkjanna, og hafa stuðningsmenn hans þegar hafið endurtalningu í fleiri ríkjum, á borð við Wisconsin og Pennsylvaníu. 

Endurtalning Cyber Ninjas fór fram í kjölfar tveggja annarra endurtalninga í Arizona sem sýndu ekki fram á neina vankanta við talningu atkvæða. Aðferðir veföryggisfyrirtækisins voru gagnrýndar fyrir ógagnsæi og óvísindalegar aðferðir. Niðurstaðan er án efa mikil vonbrigði fyrir Trump og fylgjendur hans, því fyrr í gær sagði hann þjóðina fylgjast með því hvað „hinir mikilsvirtu endurskoðendur og öldungadeild Arizona“ ætti eftir að komast á snoðir um. Þrátt fyrir niðurstöðuna sagði Trump hana mikinn sigur fyrir sitt slekti og hún sýndi hversu spilltar kosningarnar hafi verið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV