Norðmenn fagna tilslökunum stjórnvalda innilega

Mynd með færslu
 Mynd: KARI LØBERG SKÅR/NRK
Norðmenn fagna því í dag að eins og hálfs árs tímabili strangra samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins linnir. Mikil hátíðahöld og hópfaðmlög eru framundan í landinu

Þann 12. mars 2020 tilkynntu norsk stjórnvöld um hörðustu reglur sem settar hafa verið á friðartímum í landinu.

Klukkan fjögur í dag, klukkan tvö að íslenskum tíma safnaðist mannfjöldi saman í sólskininu í miðborg Óslóar til að fagna þeim nær algeru tilslökunum sem stjórnvöld tilkynntu í gær, 561 degi eftir að skólum var lokað í fyrsta skipti, veitinga- og kaffihúsum var gert að loka og aðrar samkomutakmarkanir settar. 

Erna Solberg forsætisráðherra segir Norðmenn að mestu geta tekið upp sömu hætti og áður en faraldurinn skall á. Hún kveðst þó viss um að COVID-19 fylgi mannkyni um ókomna tíð en að bólusetning hafi dregið úr áhrifum sjúkdómsins.

Bent Høie, heilbrigðisráðherra varaði við möguleikanum á að gripið verði til takmarkana síðar. Þröng var á þingi en mikið fjör er í höfuðborginni að því er fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins

Ríflega þúsund biðu í röð eftir því að komast inn á skemmtistaðinn The Hub við Clarion hótelið þar sem auðmaðurinn og fjárfestirinn Petter Stordalen efnir til hópfaðmlags og besta teitis allra tíma að eigin sögn.

Víðar um Noreg eru mikil hátíðahöld og næturklúbbaeigendur eru í óða önn að undirbúa kvöldið og nóttina enda búist við að dansþyrstir Norðmenn flykkist á dansgólfin.