Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Langar raðir við næturklúbba í borgum Noregs

Mynd með færslu
 Mynd: NAINA HELÉN JÅMA/NTB
Langar raðir mynduðust við næturklúbba í Osló í kvöld en klukkan fjögur í dag tóku miklar tilslakanir á samkomutakmörkunum gildi í Noregi. Líf, gleði og fjör ríkir víða að sögn lögreglu en sumstaðar hafa komið upp erfiðar aðstæður.

Frá því er greint á vef norska ríkisútvarpið að raðir séu allt að sextíu metra langar. Svipað er uppi á teningnum í Þrándheimi þar sem lögregla greinir frá mikilli örtröð og troðningi í röðum að skemmtistöðum.

Lögregla vinnur með dyra- og öryggisvörðum staðanna svo stjórna megi mannfjöldanum. Solfrid Lægheim sem hefur umsjón með aðgerðum lögreglu í Þrándheimi óttast að kvöldið og nóttin geti orðið erfið.

Lögregla í Troms, Bergen og Stafangri segir ríkja létt andrúmsloft þrátt fyrir fjölmenni en hins vegar hefur kvöldið verið erfiðara í Kristjánssandi.  

Erna Solberg forsætisráðherra segir Norðmenn að mestu geta tekið upp sömu hætti og áður en faraldurinn skall á. Hún kveðst þó viss um að COVID-19 fylgi mannkyni um ókomna tíð en að bólusetning hafi dregið úr áhrifum sjúkdómsins.