Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kjörkassinn frá Grímsey aldrei borist jafn snemma

25.09.2021 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Einn af stóru óvissuþáttunum hjá kjörstjórn Akureyrarbæjar hefur jafnan verið hvenær kjörkassinn frá Grímsey kemst í land. Formaður kjörstjórnar var því fegin þegar hún fékk kassann í fangið um klukkan 16 dag.

„Já og aldrei eins fegin og núna. Það var svo slæm veðurspáin að við vorum orðin ansi tæp,“ segir Helga Eymundsdóttir, formaður kjörstjórnar.

Grímseyingar boðaðir á kjörstað í gegnum Facebook 

„Þannig að það var gripið til þess ráðs í gærkvöldi að stjórnandinn í kosningunum úti í Grímsey setti bara inn á Facebook-síðu að allir þurfi að vera búnir að kjósa fyrir klukkan ellefu til þess að koma atkvæðunum í land áður en veðrið skellur á. Og það tókst, við erum búin að fá þetta í hendur. Aldrei áður verið svona snemma. Við erum oft að fá þetta milli fimm og sex, þannig að þetta er alveg frábært.“

Aldrei borist fleiri utankjörfundaratkvæði

Og kosningarnar á Akureyri hafi almennt gengið vel í dag. „Mjög vel. Við erum rétt yfir meðallagi miðað við hvað normal kosning er.“ Hún segir að utankjörfundaratkvæðin hafi aldrei verið fleiri, en metfjöldi kjósenda á Akureyri kaus utan kjörfundar í síðustu alþingiskosningum. „Já það voru yfir 2.600 þá og eru komin vel yfir 3.500 núna.“   

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV