Illa lyktandi sjálfsmynd Kópavogs

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV

Illa lyktandi sjálfsmynd Kópavogs

25.09.2021 - 12:43

Höfundar

Magnús Thorlacius eyddi sumrinu í að rannsaka Kópavog. Í þeim rannsóknum fann hann ýmsar óvæntar hliðar bæjarfélagsins og sínum fyrsta pistli um efnið í Lestinni á Rás 1 veltir hann fyrir sér hvað Kópavogslækur, eða skítalækurinn eins og hann er kallaður, geti sagt okkur um sjálfsmynd bæjarins.

Magnús Thorlacius skrifar:

Í gegnum Kópavogsdal rennur lækur út í Kópavog, voginn sem kaupstaðurinn er nefndur eftir. Lækurinn heitir Kópavogslækur, og er eitt helsta kennileiti bæjarins. Að einhverju leyti má segja að sjálfsmynd Kópavogsbæjar speglist í læknum, en hann rennur þvert í gegnum bæinn og skilur að Hvamma- og Hjallahverfið frá Smára- og Lindahverfinu. Fallegir göngu- og hjólastígar eru sitt hvorum megin við lækinn, umkringdir trjám, runnum, kjarri og almennt mikilli grænni og fallegri náttúru. Nú er einnig búið að koma frisbígolfvelli við lækinn og má því finna fólk vaða ofan í hann í leit að diskum sem villtust af leið á brautinni.

En eins og þau ykkar sem þekkja til hans vita, þá er lækurinn ekki kallaður Kópavogslækur í daglegu tali. Nei, hann er nefnilega kallaður Skítalækurinn. Einkennilegt nafn, en hann dregur það af þeirri staðreynd að um tíma lak skólp í hann og mátti finna gríðarlega ófýlu af honum. Það þótti ekki huggulegt að hægðir bæjarbúa skyldu renna í gegnum bæinn þveran. Auðvitað er það algjör skandall. Krakkar leika sér gjarnan í læknum og er það óboðlegt að hann skuli innihalda saur og annan viðbjóð sem kann að leka úr skólpinu.

Þessi lækur hefur þó einnig verið í umræðunni af öðrum ástæðum en skólpi og ódauni. Fyrir ekki svo mörgum árum varð mengunarslys í læknum með þeim afleiðingum að hann varð snjóhvítur. Um svipað leyti var tillaga lögð fyrir bæjarráð að halda úti fiskieldi í læknum, en hún var felld niður af augljósum ástæðum. Ef við förum lengra aftur í tímann brúaði hernámsliðið Kópavogslækinn á stríðsárunum. Brýr voru reistar á ýmsum stöðum, t.a.m. þar sem Fífuhvammsvegur liggur núna, en þeir kölluðu veginn Hilton Road. Fleiri tilraunir höfðu verið gerðar að brúa lækinn áður en oft hafði það tekist illa og þurft að endurbyggja brýrnar. Áður en lækurinn var brúaður höfðu nefnilega þónokkrir drukknað í læknum. Engin önnur leið er suður í átt að Hafnarfirði nema yfir lækinn, og var brú því nauðsynleg til að samgöngur um það sem við köllum nú höfuðborgarsvæðið gengi upp. Jafnvel þó lækurinn sé brúaður í dag hefur hætta stafað af honum, en börnum hefur verið bjargað frá drukknun í honum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Það liggur í augum uppi að Kópavogslækur hefur ríka og mikla sögu, þó hann hafi meira verið til trafala en nokkuð annað. Því spyr ég: Hvað gerist þegar við lítum í lækinn og skoðum úr hverju Kópavogur er gerður? Hvað getur lækurinn sagt okkur um sjálfsmynd bæjarfélagsins? Þetta er jú lækur sem rennur í gegnum Kópavogsdal út í Kópavog; Kópavogslækur í Kópavogsdal í Kópavogi. Til að svara því þurfum við að ferðast lengra aftur í tímann. 359 ár aftur í tímann, ef við viljum vera nákvæm.

 

Árið er 1662 og Vestmanneyingum hefur borist bréf. Stjórnvöld í Danmörku biðja Íslendinga um að viðurkenna að embætti konungs yfir Danmörku gangi sjálfkrafa í arf frá föður til sonar, frekar en með lýðræðislegri kosningu. S.s. að Ísland myndi viðurkenna Friðrik þriðja sem konung Danmerkur og Ísland sem erfðaríki Danmerkur með sjálfstæða stjórnarskipan.

Þetta finnst Íslendingum óþarft, en eru þó tilbúnir að láta þetta yfir sig ganga. Nýlega hafði Friðrik þriðji gerst einvaldur yfir Danmörku og Noregi og vildi hann að vald sitt næði einnig yfir Ísland. Henrik Bjelke, hirðstjóri, missir hins vegar af Öxarárþingi á Þingvöllum, þegar gert er ráð fyrir að skrifa undir samningin og er það því gert mánuði síðar í Kópavogi, á Kópavogsþingi. Þegar þangað er komið er hins vegar annar samningur upp á borðinu. Í þessum nýja samningi stendur að Ísland verði ekki einungis erfðaríki Danmerkur, heldur fjallar samningurinn einnig um einveldisskuldbindingu Íslands við Danmörku. Það fer á skjön við bréfið sem barst til Vestmannaeyja nokkrum mánuðum áður, en þar var hvergi minnst á einveldi, einungis erfðahyllingu. Í sárabætur hefur hirðstjórinn flugelda meðferðis, en slíkir gripir höfðu aldrei sést á Íslandi áður.

„O tempora! O mores!“ eða „Hvílíkir tímar! Hvílíkir siðir!“ er kallað hástöfum á þinginu meðan samningur sem átti eftir að hrjá Íslendinga næstu tvö hundruð árin, eða þangað til Íslendingar fengu sína eigin stjórnarskrá, er undirritaður af Árna Oddssyni lögmanni. Flugeldarnir hans Henrik Bjelke eru sprengdir til að hylma yfir tárin sem renna niður kinnar íslensku þjóðarinnar og blásið er til mikils fögnuðar í von um að þetta yrði allt gleymt daginn eftir.

„Veizla með prjáli,“ er hátíðarhöldunum lýst sem, meðan íslensk siðmenning fálmar sig áfram inn í myrkasta kafla Íslandssögunnar.

 

 

Áður en haldið er áfram kunnið þið að spyrja ykkur hvað þetta Kópavogsþing sé. Hvar það er og hvort það sé ennþá til. Þingið er staðsett á Þinghóli, þar sem Kópavogslækur rennur út í Kópavog. Þingið var notað á miðöldum, en staðsetningin þótti hentug þar sem hún er mitt á milli Bessastaða og Reykjavíkur. Til stóð að flytja Alþingi þangað, en ekkert varð úr því líkt og öðrum áformum og tilraunum til að gera Kópavog að merkilegri stað en hann er. Kópavogsþing er raunar einungis þekkt fyrir þennan eina atburð; Kópavogsfundinn; þegar Ísland afsalaði sér sjálfstæði sínu og varð undir einveldi Danmerkur. Kannski ekki nema von að Alþingi hafi ekki viljað flytja fundaraðstöðu sína þangað. Í dag er minnisvarði um Erfðahyllinguna á hólnum, en lítið annað sem myndi draga mann þangað þar sem bílaumferð milli Hamraborgar og Arnarneshæðar dynur um svæðið.

Til er málverk af Kópavogsfundinum, þar sem lögmenn, biskupar, prestar, prófastar, sýslumenn og bændur standa yfir samningnum í tjaldi við sjóinn. Mér hefur hins vegar aldrei fundist þetta málverk fanga stemninguna sem ríkti þennan júlídag árið 1662, eða allavega stemninguna sem

ég sé fyrir mér þegar ég les mér til um þennan atburð. Þegar ég ímynda mér Kópavogsfundinn, sé ég fyrir mér tólf lágvaxna danska hirðmenn, alla skreytta missíðum börtum, skítandi ofan í lækinn fyrir neðan Kópavogsþingið. Í huga mínum reykja þeir pípur meðan þeir girða niður um sig og sinna þörfum sínum meðan þessir glæsilegu flugeldar skera sumarhimininn. Kannski að fyrsta skólpið sem hafi runnið gegnum Kópavogsdalinn hafi verið danskur aðalsmannakúkur á þessum blíða sumardegi árið 1662.

Þegar við lítum ofan í lækinn núna sjáum við sjálfsmynd bæjarfélags sem hangir saman á þjóðaráfalli. Við sjáum danskt yfirlæti, vonlaust fiskeldi, týnda frisbígolfdiska, fólk og hesta á barmi drukknunar, breska hermenn, hrikalega mengun og ógeðfelldan saurúrgang. En Kópavogur á Skítalæknum samt margt að þakka. Lækurinn er áminning um hvaðan við komum, úr hverju við erum gerð, og að allir draumar okkar og þrár munu á endanum brostna. Hann er áminning um hvað lífið er tilgangslaust og hvernig við leyfum öðrum alltaf að vaða yfir okkur. Hann er áminning um að við munum aldrei standa upp fyrir okkur sjálfum og að við getum því alveg eins baðað okkur upp úr drullunni og skítnum, því við fljótum bara með, illa lyktandi skólpið sem við erum, sama hvort okkur líkar það betur eða verr.

Sjálfsmynd Kópavogsbæjar rennur í gegnum dalinn, og lyktar alveg hræðilega illa.