Fólk með glænýjan kosningarétt líklegt til að kjósa

Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Fólk með glænýjan kosningarétt er líklegra að mæta á kjörstað en þau sem aðeins eldri eru. Það er mat viðmælenda í Vikulokunum á Rás eitt að kosningabaráttan hafi verið málefnaleg.

„Ef það eru kosningar á árinu sem þú átt afmæli og ert nýkominn með kosningarétt þá ertu aðeins líklegri til að mæta á kjörstað heldur en þeir sem eru 18, 19, tvítugir, 21.“ Þetta sagði Eva Heiða Önnudóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í Vikulokunum á Rás 1.  

Hún sagðist varpa þessu fram sem kenningu. „Ég hendi því fram sem kenningu að þetta séu svona nýjungaáhrif, Þú ert 18 ára á árinu og það eru kosingar og þú nýkominn með kosningaréttinn og ætlar að nýta hann.“

Eva Heiða segir af eigin reynslu að ekki sé jafn spennandi og hvatning minni að mæta á kjörstað ef kosningar eru einhverjum árum eftir að rétturinn er fenginn. Eva Heiða sagði jafnframt að þetta hafi hún hafi séð gerast öðrum löndum. 

Hún segir málflutning frambjóðenda hafa verið málefnalegan og lítið um að reynt sé að grafa undan orðum andstæðinganna. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, tekur í sama streng og að ekki hafi sést nafnlausar auglýsingar líkt og í kosningabaráttum undanfarið. 

Margt hafi lærst um áhrif samfélagsmiðla, skilningur sé á að baráttan þurfi að vera málefnaleg. Nýjar reglur samfélagsmiðla auki gagnsæi mikið um hverju flokkar hafi eytt og hvernig auglýst er. Beita hafi þurft þrýstingi til að fá breytingarnar í gegn.

Það gerðu að Elfu sögn  íslensk stjórnvöld, fjölmiðlanefnd, með þrýstingi frá Menntamálaráðuneytinu og Utanríkisráðuneytinu. „Þetta er eitthvað sem stóru samfélagsmiðlarnir sögðust ætla að gera fyrir öll EES ríkin 2018 en hafa ekki gert og var ekki gert.“