Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Verjandi R. Kelly segir hann kyntákn og glaumgosa

24.09.2021 - 04:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Verjendur tónlistarmannsins R. Kelly sögðu hann vera kyntákn og glaumgosa í lokaræðu sinni í réttarhöldum gegn honum vegna kynferðisbrota í gær. Þeir sögðu þau sem ásökuðu Kelly um brotin vera æsta aðdáendur sem vilji græða pening. 

Deveraux Cannick, verjandi Kelly, sagði kviðdómnum að útgáfufyrirtæki hans hafi markaðssett hann sem kyntákn og glaumgosa. Hann hafi því lifað samkvæmt því, hefur AFP fréttastofan eftir honum. Hvar er glæpur fólginn í því, spurði hann kviðdóm. 

Cannick hóf mál sitt á að bera Kelly saman við Martin Luther King yngri. Hann sagði Kelly reyna að berjast gegn óréttlæti, rétt eins og King gerði á sínum tíma. Þá sagði hann afbrigðilegt kynlíf ekki vera glæp, og sumir hafi bara gaman að sambandi eldri manna og yngri kvenna. Loks sagði hann kviðdóm hafa hlýtt á framburð vitna um mann sem hafi komið fram við konur eins og gull, og keypt handa þeim töskur sem væru dýrari en bílar.

Að lokinni ræðu verjenda tók aðstoðarsaksóknarinn Nadia Shihata til máls og sagði framburð verjenda fáránlegan og skammarlegan. Hún bað kviðdóm um að láta verjendur ekki afvegaleiða sig. 

Kelly er ákærður fyrir fjárkúgun og brot á reglum um kynlífsmansal yfir ríkjamörk. Lokaræða saksóknara heldur áfram í dag, og að henni lokinni ræður kviðdómur ráðum sínum um örlög Kelly.