Veiddi sama laxinn í sama hylnum þrjú ár í röð

24.09.2021 - 09:08
Mynd: Sævar Örn Hafsteinsson / Sævar Örn Hafsteinsson
Hvaða líkur eru á að sami maður veiði sama laxinn í sama hylnum þrjú ár í röð? Því getur laxveiðimaður á Akureyri væntanlega svarað. Honum þótti kunnugleg hrygnan sem hann fékk í veiðiferð á dögunum, enda kom í ljós að hann hafði veitt þennan sama fisk tvö undanfarin sumur.

Þegar við hittum Sævar Örn Hafsteinsson er hann að ganga frá veiðigræjunum eftir að hafa veitt í Húseyjarkvísl í Skagafirði síðustu daga.

Sama hrygnan 2019, 2020 og 2021

Hann veiðir oft í þessari á og vorið 2019 setti hann í 90 sentimetra langa hrygnu sem hann síðan sleppti. Vorið eftir setur hann aftur í 90 sentimetra hrygnu og viti menn - þetta er sama hrygnan og árið áður. Þá á ákvað hann að skjóta í hana merki áður en hann sleppti henni. „En svo núna bara í fyrradag, í septemberlok 2021, þá fæ ég fisk sem er rétt rúmlega 90 sentimetrar og með slöngumerkið í sér.“ 

Öll skiptin eru vandlega varðveitt á myndum

Öll skiptin eru vandlega varðveitt á myndum og þegar Sævar flettir í gegnum þær í símanum sínum er einna líkast því að hann sé að lýsa endurfundum við gamla vinkonu. „Og hérna er hún fyrir tveimur dögum, bara í fyrradag, mætt aftur á sínar heimaslóðir.“

Búin að skila að lágmarki 30 þúsund hrognum í ána

„Hvaða líkur eru á því að sami veiðimaðurinn veiði sama laxinn þrjú ár í röð.“
„Það er ekki hægt að segja engar líkur á því, af því að það var að gerast, en það eru nánast engar líkur á því held ég.“ Og eflaust enn minni líkur á að fiskurinn veiðist alltaf á sama stað - en þannig er það hjá Sævari og hrygnunni góðu. „Sami hylur, sami staður, það er mjög magnað líka. Sem sýnir hvað þær rata á sinn stað. Nú er hún búin að hrygna að lágmarki þrisvar sem gerir þrisvar sinnum 10.000 hrogn í ána, sem hlýtur að vera mjög gott fyrir hvaða laxveiðiá sem er á Íslandi. Hún hefði ekki hrygnt svona oft ef hún hefði verið rotuð og hent í plast.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV