Utankjörfundaratkvæði aldrei verið fleiri

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra telur að um fimmtungur kosningabærra manna skili utankjörfundaratkvæði í umdæminu. Hann segir faraldurinn aðalástæðu þessarar miklu ásóknar í að greiða utankjörfundar. 

 

Kosið í fyrsta sinn á Glerártorgi

Klukkan 14 í dag höfðu tæplega 45.000 manns kosið utankjörfundar á landinu öllu. Í síðustu alþingiskosningum kusu tæp 38.000 utan kjörfundar þannig mun fleiri nýta utankjörfundaratkvæðagreiðslu en áður. 
Á Akureyri er í fyrsta sinn kosið utankjörfundar á Glerártorgi. Í dag hefur verið mikið að gera þar og talsverð röð. Svavar Pálsson, sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra segir að atkvæðagreiðslan hafi gengið vel.

Af hverju ákváðuð þið að flytja utankjörfundaratkvæðagreiðsluna hingað á Glerártorg og gerðuð þið ráð fyrir þessari miklu þátttöku?„ Ja þetta eru fyrst og fremst viðbrögð við ástandinu í samfélaginu. Það var fyrirsjáanlegt að það yrði að hafa sérstaka gát vegna covid-farsóttarinnar. Vegna hennar bjuggust við aukinni kjörsókn utankjörfundar,“ segir Svavar.

Þátttakan verið óvenju góð

„Þetta er utankjörfundarkjörsókn sem við höfum ekki séð áður í þessu umdæmi. Miðað við tölurnar núna í hádegi á föstudegi þá stefnir í að það verði um það bil 20% af kosningabærum einstaklingum sem muni greiða atkvæði utankjörfundar á Norðurlandi eystra,“ segir Svavar. 

Og af hverju heldurðu að það sé, er það vegna covid? „Já það er ekki spurning, þetta er covid og fátt annað,“ segir Svavar.