Punduðu á formennina í upphafi kappræðnanna

24.09.2021 - 20:57
Mynd: RUV / RUV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ítrekað hafa gengist undir dóm kjósenda og taldi að umræðan ætti að snúast um framtíðina og uppgjör við þetta kjörtímabil. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sakaði Morgunblaðið og Viðskiptablaðið um hræðsluáróður og atlögu að lýðræði með umfjöllun sinni um Kristrúnu Frostadóttur. Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalista, sagði auðveldlega hægt að ryðja Hæstarétt ef hann færi að verja auðvaldið.

Þetta var meðal þess sem kom fram í svörum formanna við fyrstu spurningum þáttastjórnenda í síðustu kappræðunum fyrir kosningarnar á morgun þar sem þeim var aðeins velgt undir uggum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, var meðal annars spurð hvort forsætisráðherrastóllinn hefði verið of dýru verði keyptur í ljósi þess að heilbrigðiskerfið hefði ekki fengið nægt fjármagn og Ísland væri enn í hópi mestu mengunarþjóða OECD. Katrín sagði rétt að Ísland væri ekki að gera nóg enda væru þjóðir heims ekki að gera nóg. Því ætti að breyta.   Hún gaf lítið fyrir stöðu flokksins í síðustu skoðanakönnun og kallaði kannanir ágætis samkvæmisleik.  Sjálf væri hún bjartsýn fyrir morgundeginum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði stóru tíðindin vera þau að ríkisstjórnin héldi velli.  Og hann hefði sagt það áður að ef þetta yrði niðurstaðan myndu núverandi ríkisstjórnarflokkar ræða saman um áframhaldandi samstarf.  Þetta væri hins vegar flókið mynstur og fylgið væri á hreyfingu.  Bjarni var spurður hvort hann teldi sig enn njóta trausts sem formaður flokksins í ljósi mála eins og Panamaskjalanna, Vafningsmálsins og nærverunnar í Ásmundarsal á Þorláksmessu.  Bjarna þótti þetta ótrúleg upptalning og sagðist ítrekað hafa gengist undir dóm kjósenda.   Tala ætti um framtíðina og uppgjör við þetta kjörtímabil.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins,  var spurður af hverju flokkurinn hefði skilið eftir öryrkja og aldraða í ljósi þess að flokkurinn hefði stýrt félagsmálaráðuneytinu á þessu ári. Sigurður sagði ekki nóg að vera bara með það ráðuneyti heldur þyrfti að semja við hina flokkana í ríkisstjórn. Framsókn ætlaði sér að halda áfram og hann tryði því að þeim tækist bæta stöðu þessara hópa, sérstaklega öryrkja.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði ekki rétt að flokkurinn væri að fá til sín kjósendur með loforði um að gefa þeim pening.  Tillögur flokksins gerðu ráð fyrir að fólk fengi það sem það ætti fyrir. Sigmundur lét formann Flokks fólksins ekki slá sig út af laginu þegar hún líkti þessum tillögum við mútur  og sagði tillögur fólksins eiga að auka verðmætasköpun, ýta samfélaginu í rétta átt og skila ávinningi fyrir ríkissjóð.

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, var inntur eftir því hvort hann teldi að eftirspurn væri eftir hans kröftum. Guðmundur sagði að ekki væri mikið að marka skoðanakannanir sem hafa sýnt flokkinn með minna eins prósent fylgi. „Ég held að þetta verði í lagi,“ sagði Guðmundur sem reiknaði 100 prósent með því að komast á þing.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var spurð út í tug milljarða skekkju sem var að finna á helstu tekjuöflunarleið fyrir kosningaloforðum sínum.  Þórhildur sagði þau vera það ábyrg að þau viðurkenndu mistök sín þegar þeim væri bent á þau.  Hún sagði borgarlaunin vera framtíðarplan flokksins sem væru hugsuð lengra en bara eitt kjörtímabil.  Skattatillögur flokksins væru grænar og framsæknar, skattar ættu að vera hærri eftir því tekjurnar væru hærri og fólk mengaði meira.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar fékk spurningu um mál Kristrúnar Frostadóttur og umfjöllun um fjármál hennar í Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu. Logi sagði ótrúlegt að dagblöð sérhagsmunaaflanna væru að krefja unga og hæfileikaríka konu um meiri upplýsingar um fjárhagsmálefni sín en aðra frambjóðendur.  Hann kallaði þetta hræðsluáróður og atlögu að lýðræði, spurningum fjölmiðlanna hefði verið svarað og það svar stæði.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar,  var spurð út í ummæli seðlabankastjóra um það stefnumál flokksins að tengja krónuna við evruna.  Hún sagði að þrátt fyrir þessi ummæli væri þetta alls ekki innihaldslaust loforð því ekkert í evrópureglum sem segði að þetta væri ekki hægt. Það væri gríðarlegt hagsmunamál að hafa hér stöðugan gjaldmiðil og tryggja hér stöðugleika gengisins.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins,  sagðist aldrei hafa orðið margsaga eða tvísaga um helsta kosningaloforð flokksins. Hún sagði mikið gleðiefni að greining sérfræðinga Kjarnans hefðu leitt í ljós að tillögur flokksins væru algjörlega passífar og snerust einfaldlega um tilfærslur innan kerfisins. 

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, sagði flokkinn vera á móti ríkisstyrktum fjölmiðlum eins og þeir væru núna þar sem styrkirnir færu til útgerðarkónga og bakhjarla stjórnmálaflokka.  Hann vildi að farið yrði að fordæmi um listamannalaun þar sem listafólkið væri styrkt. Þá var hann spurður út í þau ummæli að ryðja ætti út Hæstarétt og sagði að ef almenningur vildi að auðlindirnar væru í eigu almennings og Hæstiréttur færi að verja auðvaldið væru þess dæmi um að hægt væri að ryðja út Hæstarétti. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV