Lág- og meðaltekjufólk hrekst frá Stokkhólmi

24.09.2021 - 07:13
Mynd: RÚV Bogi Ágústsson / Bogi Ágústsson
Þrjátíu þúsund krónur á dag, hvern einasta dag, síðustu tíu árin. Svo mikið hafa íbúar í fínustu úthverfum Stokkhólm grætt á því einu að búa í einbýlishúsunum sínum. Gríðarlega hækkanir á húsnæðisverði í Svíþjóð undanfarinn áratug hafa skapað mikil auðæfi. En um leið ýtt undir misskiptingu og margskonar samfélagslegan vanda.

 

Það eru líklega ekki nýjar fréttir að húsnæðismarkaðurinn í Stokkhólmi sé galinn. En kannski hefur hann aldrei verið galnari en einmitt nú. Húsnæðisverð í Svíþjóð hefur hækkað um 20% á einu ári. Íbúðir og einbýlishús seljast á uppboðum - stundum á verði sem er tugum milljóna yfir ásettu verði.

Leiguíbúðum fækkar

Á sama tíma fækkar  leiguíbúðum  á viðráðanlegu verði. Og því er jafnvel spáð að innan aldarfjórðungs hafi fólk með meðal- eða lágar tekjur ekki lengur efni á að búa í höfuðborginni Stokkhólmi.

Húseigendur græða - að minnsa kosti á pappírnum

Hér í Svíþjóð eiga tveir af hverjum þremur það húsnæði sem þeir búa í. Og þessir fasteignaeigendur hafa hagnast mikið á síðustu tíu árum - að  minnsta kosti á pappírunum.
Meðal einbýlishús í bænum Lomma á Skáni, í Suður-Svíþjóð hefur til að mynda hækkað í verði um  jafnvirði sautján þúsund íslenskra krónna, á hverjum degi, allan síðasta áratug.

Dýrustu eignirnar í Stokkhólmi hækka mest

Hækkanirnar eru ekki bara í suðrinu. Í hinum enda landsins - í Skellefteå í Norður-Svíþjóð hefur húsnæði hækkað mest í prósentum talið, um 159% frá 2011. Og í Stokkhólmi eru margar dýrustu fasteignirnar, sem hafa hækkað mest í krónum talið. Dýru einbýlishúsin í Danderyd, einu ríkasta úthverfi Stokkhólms, hafa þannig hækkað að meðaltali um næstum 30 þúsund íslenskar krónur á dag, síðustu tíu árin.

Lágir vextir og ekki nóg byggt

Þetta er kannski ágætt fyrir fasteignaeigendurnar. En það eru samt margir sem hafa áhyggjur af þróuninni. Stjórnvöld hafa reynt að halda aftur af hækkununum, til að koma í veg fyrir að fólk steypi sér í óviðráðanlegar skuldir. Og því voru sett lög árið 2016 um að þeir sem skuldi hátt hlutfall af verði fasteigna sinna þurfi að greiða lánin niður í ákveðnum takti. Á móti kemur að minna er byggt af íbúðarhúsnæði en þarf. Og svo eru vextir mjög lágir - 1,3% að jafnaði. Og það ýtir undir verðhækkanir.

Bíða árum saman eftir viðráðanlegum leiguíbúðum

En það hafa ekki allir efni á að vera með í þessum leik. Og þá kemur að leigumarkaðnum. Um fjórðungur íbúa í Svíþjóð býr í leiguhúsnæði og lengi vel var stærri hluti þess í eigu sveitarfélaganna. Leigan er viðráðanleg en fólk getur þurft að bíða ansi lengi eftir að fá úthlutað íbúð. Hér í Gautaborg þarf fólk oft að bíða í fimm til tíu ár. Rúm tólf ár að meðaltali í Stokkhólmi. Og allt að tuttugu í Uppsölum.

Eigendur gera upp húsnæði og hækka leiguna

Það eru vissulega líka leigufyrirtæki í einkaeigu. Og einstaklingar sem leigja út íbúðir sem þeir eiga, eða íbúðir sem þeir eru sjálfir með á leigu. En framboðið er hins vegar takmarkað og íbúðirnar oft bara leigðar út í stuttan tíma í senn. Og æ oftar taka leigufyrirtæki sig til og ákveða að gera íbúðir upp og hækka um leið leiguna.

Fyrirmyndarríkið að bregðast

En hvernig stendur á því að það er skortur á íbúðarhúsnæði í Svíþjóð - landinu sem oft er bent á sem fyrirmynd í húsnæðismálum. Því það var jú í Svíþjóð, í húsnæðiskreppunni á sjöunda áratugnum, sem stjórnvöld ákváðu að byggja milljón ódýrar íbúðir, á bara nokkrum árum. Þeir sem eru gagnrýnir á stöðuna í húsnæðismálum nú, segja sumir að allar breytingar á sænska húsnæðismarkaðnum síðan þá, hafi hins vegar verið í vitlausa átt. Svíar lifi á fornri frægð.

Einkavæðing og endurbætur sprengir upp leiguna

Og nú, um hálfri öld seinna, þegar kominn er tími á viðhald og gagngera yfirhalningu á þessum íbúðum, hafa þær í mörgum tilvikum verið seldar einkafjárfestum. Endurbætur leiða oft til þess að leigan hækkar - jafnvel um helming. Adhanet Merke, íbúi í Solna, úthverfi Stokkhólms, stendur til dæmis frammi fyrir því að leigan hækki úr 210 þúsund í 330 þúsund íslenskar krónur á mánuði. Íbúar í hverfinu ætla að skjóta málinu fyrir dómstól, það það er þak á leigu í Svíþjóð.En reynslan sýnir þó að leigusalar vinna níu af hverjum tíu dómsmálum á borð við þetta.

Rúmlega helmingur leigjenda flutti eftir endurbætur

Adhanet Merke vinnur sem hjúkrunarfræðingur í Stokkhólmi en sér ekki fram á að laun sín hrökkvi fyrir svo hárri leigu. Eftir svipaðar endurbætur í öðru hverfi nýlega, fluttu um 60% íbúanna annað. Hvort sem það var vegna leiguhækkunarinnar eða af öðrum orsökum. Í Stokkhólmi og nágrenni hafa stjórnvöld áhyggjur af því að of lítið sé byggt og ekkert bendi til þess að staðan muni batna fyrir meðal- og lágtekjufólk. Það sé einfaldlega að verða of dýrt að búa í Stokkhólmi. Við þetta bætist að ódýrum leiguíbúðum fækkar stöðugt. Stjórnvöld hafa selt margar íbúðir til einkaaðila sem oft breyta þeim í búseturétti og selja, eða gera upp og hækka um leið leiguna um tugi prósenta. Það verður því sífellt erfiðara fyrir lágtekjufólk að búa í borginni.