Hádegisfréttir: Kosningar, Samherji og tölvuþrjótar

24.09.2021 - 12:13
Tæplega fjörutíu og tvö þúsund og sjö hundruð höfðu kosið utan kjörfundar nú á tólfta tímanum, fleiri en nokkru sinni fyrr. Í fyrra var heildarfjöldinn um 39 þúsund atkvæði. Í Suðvesturkjördæmi verður notuð sérstök vél til að opna umslög og flýta fyrir talningu.

Ný gögn í Samherjamálinu sýna að svo virðist sem víðtæk vitneskja hafi verið innan fyrirtækisins um mútugreiðslur og vafasama starfshætti Samherja í Namibíu. Gögnin eru hluti af rannsókn héraðssaksóknara á málinu. Átta eru nú með réttarstöðu sakbornings í málinu hér á landi.

Netöryggissérfræðingur segir að baráttan gegn tölvuglæpum snúist að mörgu leyti um að elta og bregðast við aðferðum tölvuþrjóta. Með auknum netviðskiptum vegna heimsfaraldursins þurfi mögulega að bæta varnir fyrirtækja enn frekar.

Meiri eftirvænting er fyrir alþingiskosningarnar á morgun en þær síðustu og meirihluti myndi vilja geta kosið fólk í stað flokka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups.

Rigningatíð og bleyta veldur uppskerubresti meðal kartöflubænda í Þykkvabæ. Mygla herjar á garðana í fyrsta sinn í 20 ár.

Formaður Ábyrgrar framtíðar getur hvorki kosið sjálfan sig né flokkinn á morgun. Hann býr í öðru kjördæmi og gerir ráð fyrir að skila auðu.

Veðurhorfur: Austan og norðaustan fimm til þréttan metrar og stöku skúrir eða slydduél, en dálítil rigning suðaustanlands. Víða norðaustan tíu til átján á morgun, hvassast norðvestan til og við suðausturströndina. Rigning á sunnanverðu landinu og skúrir eða él fyrir norðan, en slydda eða rigning á Norðaustur- og Austurlandi annað kvöld. Hiti tvö til níu stig að deginum.

Þetta og fleira í hádegisfréttum útvarps klukkan 12:20.
 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV