Gætu þurft að spila heimaleiki sína í Færeyjum

Mynd: MummiLú / RÚV

Gætu þurft að spila heimaleiki sína í Færeyjum

24.09.2021 - 13:01
Breiðablik gæti þurft að spila heimaleiki sína í Meistaradeild Evrópu í Færeyjum ef allt fer á versta veg en heimavöllur liðsins er ólöglegur samkvæmt stöðlum UEFA, evrópska knattspyrnusambandsins. Liðið vonast þó eftir að fá undanþágur áður en keppni hefst í október.

Flóðljósin á Kópavogsvelli eru ekki nógu öflug fyrir staðla UEFA á þessu stigi keppninnar en Laugardalsvöllur er eini völlurinn á Íslandi sem uppfyllir kröfur UEFA um lýsingu. Árið 2019 fór Breiðablik alla leið í 16 liða úrslit keppninnar og gat þá spilað heimaleiki sína á Kópavogsvelli. Nú í ár er hins vegar búið að kynna til leiks nýtt fyrirkomulag með riðlakeppni og UEFA gerir því meiri kröfur. 

Búið er að sækja um undanþágu til að spila heimaleiki liðsins á Kópavogsvelli og sérfræðingur hefur mælt styrkinn á ljósunum.„Við höfum sótt um undanþágu til að spila leikina á Kópavogsvelli. UEFA hefur tekið vel í það. Hinsvegar hafa þeir sett ákveðnar lágmarkskröfur varðandi lýsinguna til þess að við getum fengið undanþágu. Það kom til okkar sérfræðingur á sunnudaginn til að taka þetta allt saman út og mæla nákvæmlega lýsinguna. Það eru ekki komnar niðurstöður ennþá en við væntum þess að fá niðurstöður á næstu dögum og í kjölfarið mun liggja fyrir hvort við fáum undanþágu til að hafa lýsinguna eins og hún er,” segir Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks. En Sigurður Hlíðar var gestur í Sportrásinni á Rás 2. 

Ef lýsingin uppfyllir ekki lágmarkskröfur sem gerðar eru er ljóst að Breiðablik þarf að fara í mjög kostnaðarsamar aðgerðir til að geta spilað leikina á heimavelli. „Það er einhver möguleiki á að bæta við lýsinguna með tímabundnum aðgerðum. Eins og að leigja trukka frá Bretlandi. Það er ljóst að svoleiðis aðgerðir eru gríðarlega kostnaðarsamar og myndu örugglega liggja einhversstaðar á bilinu 10-20 milljónir. Annar kostur er að spila á Laugardalsvelli. Við vitum það að halda honum leikfærum í nóvember og desemer er gríðarlega kostnaðarsamt líka,” segir Sigurður Hlíðar en allur þessi kostnaður myndi lenda á Breiðablik. 

Þó að Laugardalsvöllur uppfyllir kröfur um lýsingu er ekki víst að völlurinn yrði leikfær þar sem enginn hiti er undir grasinu. Því þyrfti að halda hita á vellinum með öðrum leiðum sem einnig er mjög kostnaðarsamar. „Svo er það plan C. Það er að spila leikinn annars staðar en á Íslandi. Þar höfum við til dæmis litið til Færeyja. Frændur okkar þar eru með topp aðstæður til að spila á vetri til. En auðvitað viljum við ekki að það komi til þess að spila leikinn annars staðar en hér á Íslandi,” segir Sigurður Hlíðar.

Sigurður Hlíðar er þó vongóður um að undanþága fáist enda hefur UEFA tekið vel í beiðni Breiðabliks. „Í samtölum okkar við UEFA er alveg ljóst að við værum ekki að ræða einhverjar undanþágubeiðnir ef það væri einhver góður kostur hér á Íslandi. Ef við værum til dæmis með hita undir grasinu á Laugardalsvelli, þá myndu þessir leikir bara fara fram þar. En UEFA líst ekkert á það frekar en einhverjum öðrum að fara að spila á Laugardalsvelli í nóvember og desember. Þar af leiðandi eru þeir allir af vilja gerðir til að veita okkur undanþágur. En þetta þarf að standast einhverjar lágmarkskröfur,” segir Sigurður Hlíðar.