Framsókn á fleygiferð og ríkisstjórnin rígheldur

24.09.2021 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Framsóknarflokkurinn væri sigurvegari kosninganna ef úrslitin á morgun verða í líkingu við nýja skoðanakönnun Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum 16 þingmönnum og þótt VG tapi einum þingmanni tekst ríkisstjórninni að halda meirihluta á þingi og rúmlega það, með 35 þingmönnum. Viðreisn bætir við sig þingmanni, Samfylkingin heldur sínum 8 og Sósíalistaflokkurinn verður níundi flokkurinn á þingi.

Forystumenn stjórnarflokkanna hafa ítrekað lýst því yfir í kosningabaráttunni að haldi ríkisstjórnin velli verði það þeirra fyrsta val að ræða áframhaldandi samstarf. 

Og samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup er líklegt að fyrstu stjórnarmyndunarviðræðurnar eftir helgi verði milli formanna VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Flokkarnir þrír mælast með um 50 prósent fylgi og þeir fengju 35 þingmenn. Hægt er að lesa meira um fylgi flokkanna í könnun Gallup hér. 

Mestu munar um það mikla flug sem Framsóknarflokkurinn hefur verið á í skoðanakönnunum síðustu daga. Hann myndi bæta við sig þremur þingmönnum og fengi 11 menn kjörna, þar af tvo í höfuðborginni þar sem ráðherrarnir Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason eru oddvitar.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum 16 þingmönnum og samkvæmt könnun Gallup breytist fjöldi þingmanna í hverju kjördæmi fyrir sig ekkert. VG fengi 8 og myndi tapa einum þingmanni í Norðausturkjördæmi þar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður, er oddviti.

Samfylkingin heldur sínum átta þingmönnum þrátt fyrir að tapa manni bæði í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi sem er kjördæmi Loga Einarssonar, formanns flokksins. Flokkurinn styrkir stöðu sína í höfuðborginni þar sem hann fengi fjóra þingmenn, tvo í hvoru kjördæmi.

Viðreisn er eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem eykur þingmannafjölda sinn, fer úr 4 þingmönnum í 5 þingmenn þótt hann missi einn þingmann í Kraganum, kjördæmi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns.   Flokkurinn næði hins vegar inn þingmanni bæði í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. 

Píratar myndu tapa tveimur þingmönnum ef úrslitin yrðu samkvæmt könnun Gallup. Það má rekja til slæmrar útkomu í höfuðborginni. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn fimm þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur en þeir yrðu aðeins tveir, samkvæmt könnun Gallup.

Miðflokkurinn var stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi þegar tveir þingmenn Flokks fólksins bættust við þá sjö sem flokkurinn fékk eftir síðustu kosningar. Flokkurinn myndi tapar þremur, samkvæmt könnun Gallup og fengi því fjóra. Tveir þeirra kæmu úr Norðausturkjördæmi, heimabyggð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns.

Flokkur fólksins fengi þrjá þingmenn.  Formaðurinn Inga Sæland næði kjöri í Reykjavík suður en Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi, kæmist ekki inn. Flokkurinn fengi mann kjörinn í Norðausturkjördæmi þar sem oddvitinn er Jakob Frímann Magnússon og síðan Suðurkjördæmi.  

Sósíalistaflokkurinn yrði síðan níundi flokkurinn á Alþingi en hann fengi þrjá menn kjörna, þar af tvo í höfuðborginni þar sem oddvitarnir Gunnar Smári Egilsson og Katrín Baldursdóttir næðu kjöri. Þriðji þingmaðurinn, samkvæmt könnun Gallup, yrði í Suðurkjördæmi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV