Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fleiri spenntir fyrir kosningunum en fyrir fjórum árum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talsverður meirihluti landsmanna myndi frekar vilja kjósa einstaka frambjóðendur en framboðslista í komandi alþingiskosningum samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. 63 prósent svarenda sögðust frekar vilja kjósa einstaka frambjóðendur en 37 prósent lista.

Nærri allir óákveðnir kjósendur og þeir sem ætla að skila auðu eða ekki að kjósa styðja frekar hugmyndina um einstaka frambjóðendur. Kjósendur Flokks fólksins og Pírata eru hlynntastir því að kjósa einstaka frambjóðendur frekar en lista, en kjósendur Miðflokksins eru þeir einu þar sem meirihlutinn vill kjósa framboðslista. Talsvert fleiri konur en karlar vilja kjósa einstaka frambjóðendur, 70 prósent kvenna og 56 prósent karla. 

Menn eða málefni?

Helmingur kjósenda undir þrítugu segir kosningabaráttuna aðallega snúast um málefni. Er það eini hópurinn sem telur þau skipta mestu máli. Nærri fjórðungur kjósenda 60 ára og eldri telur baráttuna aðallega snúast um frambjóðendur, en flestir telja að hún snúist jafnt um frambjóðendur og málefni.

Þarna er einnig talsverður munur á milli flokka. Nær helmingur kjósenda Viðreisnar telur baráttuna snúast um málefni, 40 prósent kjósenda Vinstri grænna, 38 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 37 prósent kjósenda Sósíalistaflokks Íslands eru sammála því. 28 prósent kjósenda Miðflokksins eru á því að kosningabaráttan snúist aðallega um frambjóðendur og 27 prósent kjósenda Sósíalista. 

Talsverð spenna

Fleiri eru spenntir fyrir úrslitum kosninganna í ár en fyrir fjórum árum samkvæmt púlsinum. Alls kveðast nærri þrír af hverjum fjórum svarenda vera spenntir, en aðeins tíu prósent eru lítið spenntir. Kjósendur Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins eru spenntastir fyrir kosningunum, en hinir óákveðnu og þeir sem ætla að skila auðu eða ekki að kjósa eru minnst spenntir.

Þeir óákveðnu og sem ætla að skila auðu eða sleppa því að kjósa segjast þekkja stefnumál og áherslur stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar illa. Alls telja tveir af hverjum þremur landsmönnum sig þekkja stefnumálin vel.

Þá ætla sjö af hverjum tíu að horfa á kosningasjónvarp að einhverju leyti annað kvöld. Rúm 40 prósent ætla ða fylgjast með á kosningavef fjölmiðla og um 15 prósent að fylgjast með umræðum á Twitter. Þar er fólk undir fertugu líklegast til að fylgjast með. Um tíu af hundraði ætla að halda eða fara í kosningapartí, og átta prósent ætla á kosningavöku.
Úrtak könnunarinnar voru 1.938 einstaklingar og svöruðu 51,8 prósent könnuninni. Hún var gerð dagana 20. til 23. september. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV