Fáir í framboði hjá KSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson

Fáir í framboði hjá KSÍ

24.09.2021 - 15:33
Þegar tæpur einn og hálfur sólarhringur er eftir af framboðsfresti fyrir aukaþing KSÍ hefur Vanda Sigurgeirsdóttir ein boðið sig fram til formanns. Þá þarf sextán manns í stjórn en þrír hafa gefið kost á sér svo vitað sé.

Framboðsfresturinn rennur út á miðnætti annað kvöld og þingið sjálft verður haldið 2. október. Ef ekki tekst að manna stjórn verður fresturinn að öllum líkindum lengdur.

Þeir sem hyggjast bjóða sig fram í stjórn eða til formanns þurfa skrifleg meðmæli frá félögum sem hafa á bak við sig að minnsta kosti tólf atkvæði á þinginu. Kjörnefnd fer yfir allar umsóknir á mánudaginn og opinberar lögleg framboð. 

Stjórn KSÍ sagði af sér 30. ágúst í kjölfar uppljóstrana um að hún hefði þagað og reynt að hylma yfir ofbeldisbrot landsliðsmanna. Degi áður hafði formaðurinn Guðni Bergsson sagt af sér.