Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Einkarekin heilbrigðisfyrirtæki greitt út stórfé í arð

24.09.2021 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Tvö einkarekin myndgreiningarfyrirtæki hafa greitt út samtals rúman milljarð í arð seinustu fjögur ár. Þau eru í eigu fjögurra lækna.

Heilbrigðismál hafa verið áberandi í aðdraganda kosninganna sem fara fram á morgun. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti þeirri skoðun sinni í Bítinu á Bylgjunni að hún og flokkur hennar væru alfarið á móti hagnaðardrifnum rekstri í heilbrigðisþjónustu. Fyrirtækin mættu vera einkarekin, en ættu ekki að greiða út arð. 

Í nýbirtum ársreikningi Læknisfræðilegrar greiningar, sem sér um tvo þriðju hluta myndgreiningar utan Landspítalans kemur fram að á seinasta ári hafi verið greiddur út arður upp á 241 milljónir króna. Tekjur þess, sem eru greiddar af Sjúkratryggingum Íslands og sjúklingum nam einum komma þremur milljarði króna. Fyrirtækið er í eigu eins læknis, Magnúsar Baldvinssonar. Frá árinu 2018 hefur fyrirtækið samtals greitt út arð sem nemur 674 milljónum króna.

Annað fyrirtæki á þessum sama markaði, Íslensk myndgreining, hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2020 en seinustu þrjú ár þar á undan greiddi fyrirtækið út arð sem nemur 333 milljónum króna. Það fyrirtæki er í eigu þriggja lækna.  Samtals hafa þessi tvö fyrirtæki greitt úr rúman milljarð í arð á þessu kjörtímabili.