Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Aldís nálægt sínu besta á úrtökumótinu

Mynd með færslu
 Mynd: SSÍ - Skautasamband Íslands

Aldís nálægt sínu besta á úrtökumótinu

24.09.2021 - 09:09
Skautakonan Aldís Kara Bergsdóttir fékk 39,92 stig fyrir æfingar sínar í skylduæfingar sínar (e. short program) á úrtökumóti fyrir vetrarólympíuleikana sem verða í Peking í febrúar. Úrtökumótið er haldið í Nebelhorn í Þýskalandi.

Alls keppa 37 konur í kvennaflokki listhlaupsins í Nebelhorn. Allar nema fjórar þeirra eru í sömu erindagjörðum og Aldís Kara, að berjast um síðustu lausu sætin inn á Ólympíuleikana í febrúar. Keppnin er hörð, því aðeins sex Ólympíusæti eru í boði.

Aldís Kara er aðeins nýfarin að keppa í fullorðinsflokki og því er hún ekki síður að sækja sér reynslu með þátttöku á úrtökumótinu í Þýskalandi. Hún er í 31. sæti eftir stutta prógram. Alysa Liu frá Bandaríkjunum er efst sem stendur í keppninni, en hún halaði inn 70,86 stig. Liu varð bandarískur meistari 2019 og 2020 og því alls enginn aukvisi.

Keppt verður í frjálsum æfingum, sem er seinni hluti keppninnar í fyrramálið. Keppnin hefst klukkan 8:00 að íslenskum tíma. Hér má svo rýna betur í stöðuna.