Tugir barna dáið í flóttamannabúðum á Sýrlandi á árinu

epaselect epa07623500 A Wive of Islamic state fighter (IS) waits with her children upon her deportation from the al-Hol camp for refugees in al-Hasakah governorate in northeastern Syria on 03 June 2019 (issued 04 June 2019).  According to media reports, the Kurdish authorities in northeast Syria are handing over 800 women and children all of them Syrian, including relatives of Islamic state fighters, to their families in the first such transfer from an overcrowded camp.  EPA-EFE/AHMED MARDNLI
Konur og börn í Al-Hol flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Mynd: EPA-EFE - EPA
62 börn hafa dáið í Al-Hol flóttamannabúðunum í Sýrlandi það sem af er ári, eða um tvö börn að meðaltali í hverri viku. Í flóttamannabúðunum eru fjölskyldur sem taldar eru tengjast vígahreyfingunni sem kennir sig við íslamskt ríki, að sögn samtakanna Save the Children. 

Alls dvelja um 40 þúsund börn frá 60 löndum við ömurlegar aðstæður í Roj og Al-Hol flóttamannabúðunum í norðaustanverðu Sýrlandi. Save the Children segir fjölda ríkja, þar á meðal Evrópusambandsríkin, bregðast börnunum sem dvelja þar. Þau séu berskjölduð fyrir ofbeldi, eldsvoðum, vannæringu og sjúkdómum.

Ástæður dauðsfalla barnanna eru af ýmsum toga, þar á meðal vegna ofbeldis, sjúkdóma og slysa. Alls hafa 73 verið myrtir í Al-Hol á árinu, þar af tvö börn, að sögn Save the Children.

Búðirnar áttu aðeins að hýsa fjölskyldur manna sem sitja inni vegna gruns um að þeir tengist íslamska ríkinu. Síðan hafa bæst við fjölskyldur sem flúið hafa ágang vígahreyfingarinnar í Írak og Sýrlandi. Margir hafa dvalið í yfirfullum búðunum í rúm fjögur ár.

Samkvæmt Save the Children voru 320 börn í búðunum á vegum Frakka. Þeir hafa aðeins komið 35 þeirra aftur til síns heima. 60 eru á vegum Breta og aðeins fjórum þeirra hefur verið komið aftur heim. AFP fréttastofan hefur eftir Sonia Khush, stjórnanda viðbragða Save the Children í Sýrlandi, að þetta sé til merkis um að erlend stjórnvöld séu einfaldlega að skilja börn eftir óafskipt. 83 prósent þeirra sem komið hefur verið úr flóttamannabúðunum hafi farið til Úsbekistan, Kósóvó, Kasakstan og Rússlands.

Kúrdar hafa umsjón með flóttamannabúðunum. Þeir hafa ítrekað greint frá því að þeir hafi ekki bolmagn til að skipuleggja réttarhöld yfir öllum erlendu mönnunum sem grunaðir eru um aðild að íslamska ríkinu. Þeir ráða heldur ekki við að aðstoða fjölskyldur þeirra. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV