Þíða í samskiptum Bandaríkjamanna og Frakka

23.09.2021 - 04:12
epa09262397 France's President Emmanuel Macron, US President Joe Biden (L) and European Commission President Ursula von der Leyen during the G7 Summit in Carbis Bay, Britain, 11 June 2021. Britain will held the G7 summit in Cornwall in from 11 to 13 June 2021.  EPA-EFE/NEIL HALL/INTERNATIONAL POOL / POOL
 Mynd: EPA
Sendiherra Frakklands í Bandaríkjunum er væntanlegur aftur til Washington, eftir að hafa verið kallaður heim í fússi í síðustu viku. Emmanuel Macron forseti Frakklands og Joe Biden Bandarikjaforseti ræddu saman í síma í gær og sammæltust um að reyna að draga úr spennu í samskiptum ríkjanna.

Þá greindi embættismaður úr bandaríska utanríkisráðuneytinu fjölmiðlum frá því í gærkvöld að þeir Antony Blinken og Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherrar ríkjanna, ætli að eiga fund undir fjögur augu í dag. Ráðherrarnir áttu stutt samtal í gær á fundi fastaríkjanna fimm í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að sögn embættismannsins.

Macron kallaði sendiherrann heim eftir að Bandaríkin, Bretland og Ástralía tilkynntu um Aukus-samkomulagið, nýtt varnarbandalag sem felur í sér víðtækt samstarf. Meðal annars fá Ástralar aðgang að bandarískri tækni í smíði kjarnorknúinna kafbáta. Af þeim sökum riftu Ástralar samningi sem þeir höfðu gert við franskt fyrirtæki um kaup á kafbátum fyrir ríflega 30 milljarða evra.

Johnson segir Frökkum að slaka á

Ekki gengur jafn vel að stilla samskiptin á milli Breta og Frakka. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bað Frakka um að slaka aðeins á í gær, um leið og hann fagnaði Aukus-samkomulaginu. Johnson sagði við blaðamenn í Bandaríkjunum að hann telji að tími sé til kominn fyrir helstu vinaþjóðir Breta að prenez un grip og donnez moi un break vegna samkomulagsins. Sló hann þar um sig á frönsku og bað vinaþjóðirnar þannig um að slaka á og hætta að spá í þessu. Þá bætti hann því við að opið væri fyrir önnur ríki að taka þátt í samkomulaginu, og blés á hugmyndir um að stofnað væri til þess til að svara vaxandi áhrifum Kínverja.