Réttarhöldum yfir R. Kelly við það að ljúka

23.09.2021 - 03:28
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Saksóknari í málinu gegn söngvaranum R. Kelly segir hann hafa notað lygar, stjórnun, hótanir og líkamlega áreitni til þess að gera sér kleift að fremja kynferðisbrot áratugum saman. Saksóknari flutti lokaræðu sína í réttarhöldunum yfir Kelly í gærkvöld.

Ræðan stóð yfir í tvær klukkustundir, og lýsti Elizabeth Geddes saksóknari því hvernig söngvarinn hafi notfært sér peninga og persónu sína til þess að fela glæpina.

Yfirvöld þurfa að færa sönnur á að Kelly hafi stýrt glæpahring, þar sem aðstoðarfólk hans hafi hylmt yfir með honum. Geddes sagði að án þeirra aðstoðar hefði sakborningurinn ekki geta haldið uppteknum hætti í nærri þrjá áratugi.

Málið gegn Kelly í New York ríki Bandaríkjanna er vegna ákæru fyrir að hafa brotið gegn sex konum, þeirra á meðal söngkonunni Aaliyah sem lést í flugslysi árið 2001. Kelly kvæntist henni árið 2001, þegar hún var aðeins 15 ára. Hann var þá 33 ára. Fleiri meint fórnarlömb báru vitni gegn honum og lýstu ofbeldi af hans hálfu. Þeirra mál voru þó ekki tekin fyrir að þessu sinni, en saksóknari vildi sýna fram á hegðunarmynstur Kelly. Verjendur reyndu að kasta rýrð á vitnin með því að segja þau aðdáendur söngvarans sem vildu hefna sín á honum fyrir að ljúka sambandi þeirra. 

Kelly er ákærður fyrir fjárkúgun og átta brot gegn lögum sem banna að flytja fólk á milli ríkjamarka til að stunda kynlíf. Söngvarinn neitar alfarið sök. Þegar réttarhöldunum í New York lýkur bíða hans þrjú önnur fyrir alríkisdómstólum annars staðar í Bandaríkjunum. Þar á meðal eru ákærur vegna barnakláms og fyrir að hindra framgang réttvísinnar.

R. Kelly, fæddur Robert Sylvester Kelly, var einhver stærsta stjarna R&B tónlistar um síðustu aldamót. Hann átti til að mynda stórsmellinn I Believe I Can Fly.