Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Rætur mínar eru enn í íslenskum hraunbreiðum“

Mynd: Menningin / RÚV

„Rætur mínar eru enn í íslenskum hraunbreiðum“

23.09.2021 - 13:53

Höfundar

Hin heimsþekkta leikkona Noomi Rapace fer með aðalhlutverk í nýrri íslenskri kvikmynd, Dýrinu. Leikkonan tengist Íslandi sterkum böndum og segir hún að dvölin á Íslandi við tökur á myndinni hafi minnt hana á hver hún er.

Dýrið er fyrsta kvikmynd leikstjórans Valdimars Jóhannssonar í fullri lengd. Með aðalhlutverk fara Noomi Rapace og Hilmir Snær Guðnason, rithöfundurinn Sjón skrifar handritið. Viðtal við Noomi Rapace verður sýnt í Menningunni á RÚV í kvöld.

Í viðtalinu, sem fer fram á íslensku, fer ekki á milli mála að Noomi ber miklar tilfinningar til Íslands. Hún kom hingað til lands í fyrsta sinn þegar hún var fjögurra ára, ásamt stjúpföður sínum og móður. „Við bjuggum á Sólheimum á Íslandi og fjölskylda pabba míns býr á Flúðum, þannig að ég fór á milli Sólheima, Flúða og Selfoss. Svo flutti ég til Svíþjóðar þegar ég var 8 ára. En ég vildi ekki vera í Svíþjóð, vildi bara fara aftur til Íslands.“

Þegar henni bauðst tækifæri til að leika í íslenskri kvikmynd þurfti hún ekki að hugsa sig um. „Ég hafði beðið eftir þessari mynd síðan ég byrjaði að vera leikkona. Kroppurinn minn vissi að þessi mynd kæmi til mín og ég færi aftur þangað sem allt byrjaði hjá mér.“

Hún segist hafa notið hverrar einustu stundar við tökur á myndinni og hér hafi henni tekist að kjarna sig. „Sem barn átti ég hvergi heima en hér skaut ég rótum og rætur mínar eru enn í íslenskum hraunbreiðum. Í hvert skipti sem ég lendi í Keflavík og kem út og finn lyktina af íslensku lofti þá hugsa ég: Þetta ert þú Noomi. Þess vegna finnst mér að Dýrið hafi minnt mig á það hver ég er.“

Noomi vill ekki að þetta verði síðasta íslenska kvikmyndin sem hún gerir, raunar hafi hún og Valdimar þegar hafið samtal um hvað þau ætli að gera næst saman. Samstarf hennar við Sjón heldur einnig áfram en hann skrifar handritið að væntanlegri kvikmynd Alis Habbasi, sem byggist á Hamlet eftir William Shakespeare. Noomi leikur þar aðalhlutverkið, Hamlet sjálfan.

Fjallað verður um kvikmyndina Dýrið í Menningunni á RÚV klukkan 19:50 í kvöld, þar sem rætt er við Noomi Rapace, Valdimar Jóhannsson, Hilmi Snæ Guðnason og Sjón.

Tengdar fréttir

Pistlar

Lambið í barnaherberginu

Kvikmyndir

Dýrið hreppti frumleikaverðlaun í Cannes

Menningarefni

Noomi Rapace lærði að taka á móti lambi fyrir Dýrið

Kvikmyndir

Dýrið heimsfrumsýnd á Cannes hátíðinni