Peysufatadagur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Peysufatadagur

23.09.2021 - 20:30

Höfundar

Verslunarskólanemendur skemmtu sér í dansi í Hörpu í dag á Peysufatadeginum. Meira verður dansað í kvöld en upphlutur og peysuföt verða þá eftir heima og annar dansgalli dreginn fram. Þetta er fyrsta ball í Verslunarskólanum frá upphafi COVID.

Nemendur Verslunarskólans klæddust samkvæmt hefð á Peysufatadegi þegar þeir mættu í Hörpu í dag þar sem boðið var upp í dans. Spenningur virtist ekki síðri hjá foreldrunum en nemendum.

Erla Sólveig Hannesdóttir og Kieron Breki Moore voru spennt að skella sér í dansinn og sögðust búin að æfa sig. Þau hlakka til að dansa meira í kvöld.

Una Boel Jónsdóttir og Þorsteinn Már Höskuldsson
kváðust örlítið stressuð fyrir gömlu dansana en voru spennt og ánægð  „Við vorum í íþróttatíma í vikunni að læra þetta en vonandi munum við þetta. Já þetta er svona svolítið komið að því hvort við munum það sem við lærðum."

„Þið ætlið að dansa meira í kvöld?" „ Já svo sannarlega." „Verður það þessi galli eða verður skipt um?"  „Það er ekki þessi galli þetta eru ekki alveg bestu fötin. við viljum ekki eyðileggja þau." Upphluturinn sem Una Bóel klæddist í dag ef frá langömmu hennar. 

Þórður Arnar Marteinsson sá um harmonikkuleikinn. Þetta er þrettánda árið sem hann þenur nikkuna á Peysudegi í Verslunarskólanum. Hann segir skemmtilegt að spila fyrir Verslunarskólanemana. Hann hefur spilað á harmonikkuna í áratugi og oft undir hröðum dansi.

„En þegar það eru bara eldri borgararnir sko og hérna hjá skólanum sko að fara ekki of hratt." „Þannig að hraðinn hjá Verslunarskólanemendunum er svona svipaður og þegar þú ert að spila fyrir eldri borgara?"  „Já ég gæti trúað því."