Ótrúlegt ferðalag Dýrsins frá skissubók á hvíta tjaldið

Mynd: Dýrið / Go to Sheep

Ótrúlegt ferðalag Dýrsins frá skissubók á hvíta tjaldið

23.09.2021 - 20:02

Höfundar

Kvikmyndin Dýrið með Noomi Rapace og Hilmi Snæ í aðalhlutverkum var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes og hreppti þar verðlaun í flokknum frumlegasta myndin. Kvikmyndinni lýsir Valdimars Jóhannsson leikstjóri sem klassískri sögu með einu súrrealísku elementi.  

„Ég byrjaði á að gera skissubók með teikningum og myndum til að finna stemninguna fyrir hvernig sagan ætti að vera,“ segir Valdimar Jóhannsson, leikstjóri Dýrsins. „Ég var með óljósa hugmynd um hvernig sagan ætti að vera. Svo kynna Hrönn og Sara, framleiðendur myndarinnar, mig fyrir Sjón. Við hittumst og mér finnst svo fallegt hvernig hann vinnur með þjóðsögurnar og eftir það, þá byrjuðum við að hittast vikulega.“  

Sjón segir að vinnan hafi farið fram jafnt og þétt yfir margra ára tímabil. „Þannig að þegar við sátum þarna í Cannes í sumar og sáum þessa mynd í fyrsta skipti með fólki má segja að ég klökknaði vegna þess að þarna var hún, þarna var myndin sem við lögðum upp með fyrir öllum þessum árum.“ 

Tengsl Noomi Rapace við Ísland eru rík. Hún á íslenskan stjúpföður og bjó um skeið á Sólheimum. „Fjölskylda pabba míns bjó á Flúðum. Ég var hér á milli Sólheima og Flúða, Selfoss. Svo fluttum við til baka til Svíþjóðar þegar ég var átta ára. Ég vildi alls ekki fara til baka og fór til Íslands hvert einasta sumar.“ 

Dýrið fjallar um ást, segir Noomi, að heilast og koma til baka til lífsins. „Ég segi að þetta sé auðsjáanlega kvikmynd um að vera móðir og svo manneskjuna gagnvart náttúrunni, hve langt okkur hefur borið af leið og að hve miklu leyti við séum enn dýr.“

„Grunnsagan er hjón sem hafa misst barn, búa út í sveit,“ segir Hilmir Snær. „Einhver vera fæðist í fjárhúsum þeirra sem þau taka að sér. Mér finnst þetta í raun og veru fjalla um hvernig við manneskjan tökum og tökum frá náttúrunni en einhvern veginn á endanum þá nær náttúran að taka frá þér eða refsa þér. Þetta eru hjón sem hafa aðlagað náttúruna að sér en ekki sig af náttúrunni.“

Valdimar segir að Dýrið sé mynd sem hann hafi langað að sjá í lengri tíma. „Fyrir okkur er þetta bara svona klassísk saga með einu súrrealísku elementi. En mér finnst alltaf gott ef fólk getur skilið hana á marga vegu. Auðvitað vissum við ekkert hvort yrði eftirspurn eftir þannig mynd eða hvort einhver vildi sjá hana.“  

„Þetta er alveg ótrúlegt ferðalag þessi mynd,“ segir Sjón, „og að það að það hafi tekist að gera hana og ekki bara gera hana heldur líka af þeim listræna metnaði og djörfung sem við vonuðumst til þess að það tækist. Svo kemur Noomi inn með mikið afl með sér, bæði sem stórkostleg leikkona og reynda kvikmyndaleikkona sem hún er, en líka skapaði það traust framleiðanda úti um allan heim á verkefninu.“  

Kvikmyndin Dýrið verður frumsýnd á Íslandi 24. september.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Rætur mínar eru enn í íslenskum hraunbreiðum“

Pistlar

Lambið í barnaherberginu

Kvikmyndir

Dýrið hreppti frumleikaverðlaun í Cannes

Menningarefni

Noomi Rapace lærði að taka á móti lambi fyrir Dýrið