Ofsótta tónskáldið Theodorakis

Mynd með færslu
 Mynd: Koen Suyk/Anefo - Wikimedia Commons

Ofsótta tónskáldið Theodorakis

23.09.2021 - 12:46

Höfundar

2. september lést Mikis Theodorakis, 96 ára að aldri. Theodorakis var frægasta tónskáld Grikkja, ekki síst þekktur fyrir tónlist sína við kvikmyndina „Grikkinn Zorba“, en hann samdi tónlist af margvíslegu tagi, allt frá mótmælasöngvum upp í óperur. Hann lenti oft í fangelsi í heimalandi sínu vegna stjórnmálaskoðana og á tíma herforingjastjórnarinnar, 1967-1974, var tónlist hans bönnuð.

Michail Theodorakis fæddist á grísku eyjunni Khíos 29. júlí 1925. Faðir hans var lögfræðingur frá Krít og þótt móðir hans væri grísk var hún frá Çeşme, sem nú tilheyrir Tyrklandi. Theodorakis heyrði gríska þjóðlagatónlist frá unga aldri og var enn á barnsaldri þegar hann fór sjálfur að fást við að semja lög.

Handtekinn 16 ára gamall

Örlögin höguðu því þannig að Theodorakis lifði mikla ólgutíma. Árið 1939 hófst heimstyrjöldin síðari og tveimur árum síðar réðust Þjóðverjar inn í Grikkland. Landinu var skipt í þrennt, yfirráðasvæði Þjóðverja, Ítala og Búlgara. Andspyrnuhreyfing gegn innrásarliðinu myndaðist fljótt og Theodorakis var ekki nema 16 ára þegar hann var handtekinn í fyrsta skipti fyrir að slá ítalskan foringja í götumótmælum. Í fangelsinu var Theodorakis pyntaður, en í gegnum samfanga sína kynntist hann kommúnisma og eftir að hann var látinn laus fór hann til Aþenu og gekk til liðs við hina vinstrisinnuðu andspyrnuhreyfingu Þjóðfrelsisvarðliðið, sem skammstafað var E.A.M. Hann hóf einnig nám við Tónlistarháskólann í Aþenu. Breski herinn hrakti Þjóðverja burt árið 1944, en skömmu síðar hófst borgarastríð sem stóð með hléum í Grikklandi til ársins 1949. Theodorakis lenti hvað eftir annað í fangabúðum og var pyntaður. Þess á milli fór hann að mestu huldu höfði, en reyndi samt að halda áfram tónlistarnámi sínu eftir því sem hægt var. Borgarastríðinu lauk með sigri stjórnarinnar 1949 og ári seinna útskrifaðist Theodorakis úr Tónlistarháskólanum í Aþenu. Hann var þá 25 ára gamall.

Hinn rétti tónn

Theodorakis stundaði framhaldsnám í París og fór brátt að láta að sér kveða sem tónsmiður. Árið 1958 fann hann sinn rétta tón þegar hann samdi lög við ljóðaflokkinn Epitafion eftir Jannis Ritsos, en þeir höfðu báðir verið í Makronisos-fangabúðunum. Ljóðin hafði Ritsos ort í tilefni af morði  lögreglunnar á ungum verkamanni eftir friðsamleg mótmæli árið 1936. Þótt langt væri liðið frá atburðinum hreifst Theodorakis af ljóðunum og samdi tónlist við þau í anda grískrar þjóðlagatónlistar. Epitafion-söngvarnir juku mjög á frægð Theodorakis. Pantaðir voru þrír ballettar hjá honum, og einn þeirra var Antígóna, ballett sem fluttur var í Lundúnum með ballettstjörnunni Margot Fonteyn í aðalhlutverki. Í heimalandi hans jukust vinsældir hans einnig að mun og Theodorakis settist nú aftur að í Grikklandi ásamt fjölskyldu sinni.

Grikkinn Zorba

Árið 1964 var Theodorakis kosinn á þing. Og sama ár samdi hann þá tónsmíð sína sem flestir þekkja: tónlist við kvikmyndina Grikkinn Zorba. Gríski kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Cacoyannis leikstýrði myndinni sem er byggð á skáldsögu eftir Nikos Kasantsakis. Þar segir frá ungum manni, Basil, og kynnum hans af Grikkjanum Zorba sem er fullur af lífskrafti. Frægasta atriði myndarinnar – og um leið frægasta lag Theodorakis – er þegar Zorba kennir Basil að dansa grískan þjóðdans á ströndinni. Anthony Quinn lék Zorba og Alan Bates Basil.

Fjögurra ára fangelsi fyrir að selja hljómplötu

Ólga var mikil í Grikklandi um miðbik 7. áratugar. 21. apríl 1967 rændi herinn völdum og sett var á harðstjórn herforingja. Theodorakis og aðrir vinstrisinnar voru í mikilli hættu og Theodorakis fór í felur. Herforingjastjórnin bannaði öllum í landinu að leika, hljóðrita eða selja tónlist eftir Theodorakis, að viðlögðum hörðum refsingum. Þetta voru ekki aðeins orðin tóm, eins og sjá má á þessari frétt sem birtist í grísku blaði 9. nóvember 1967.

Herdómstóll í  Þessalóníku dæmdi á miðvikudag kaupmanninn Konstantinos Daoutis, 24ra ára, til fjögurra ára fangelsis fyrir að hafa selt plötu með Mikis Theodorakis, en tónlist hans er bönnuð.

Sungið í fangelsinu

Brátt lenti Theodorakis í fangelsi þar sem grimmilegar pyntingar tíðkuðust. Engu að síður tókst honum að semja lög meðan á fangavistinni stóð, m.a. samdi hann lög við fjögur ljóð eftir Giorgos Seferis í Averoff-fangelsinu 9.-10. janúar 1968. Fangarnir sungu söngvana sjálfir í klefa sínum og Theodorakis segir að þeir hafi verið sérstaklega hrifnir af söngnum Lida akoma, en í þýðingu Böðvars Guðmundssonar heitir ljóðið Ei lengi að bíða. Loks kom að því að Theodorakis væri látinn laus, m.a. vegna þrýstings erlendis frá. Theodorakis segir þannig frá í bókinni Dagbók úr andspyrnuhreyfingu (Journal de résistance):

Ég fæ tíma til að kveðja vini mína sem eiga að snúa aftur í klefa sína og einangrun. „Við verðum allir í glugganum og kveðjum þig,“ segja þeir. Og þegar stundin er komin til þess að yfirgefa fangelsið standa þeir allir við rimlagluggann og syngja:

„Þess er ei lengi að bíða, bráðum glitra möndlublómin...“

Tónlist smyglað úr landi

Frelsið stóð ekki lengi hjá Theodorakis. Um haustið 1968 var farið með hann og fjölskyldu hans upp í fjallaþorpið Zatouna þar sem þau lifðu í hálfgerðri einangrun og undir stöðugu eftirliti öryggislögreglunnar. Samt tókst að smygla þaðan nýjum söngvum Theodorakis og gefin var út plata með þeim í Hollandi. Meðferðin á Theodorakis vakti alþjóðlega reiði, hann veiktist af berklum og loks fékk hann að fara í útlegð til Frakklands árið 1970. Fjölskylda hans kom þangað á eftir honum. Fjórum árum síðar, 1974, féll herforingjastjórnin í Grikklandi og Theodorakis sneri aftur heim ásamt fjölskyldu sinni. Honum var vel fagnað og upp runnu nýir tímar.

Tónskáld Grikklands

Theodorakis sat á þingi á árunum 1981-1986, og um svipað leyti og hann hóf þingsetuna sneri hann sér aftur að sinfónískri tónlist, sem hann hafði ekki gefið mikinn gaum frá því á æskuárunum. Á áratugunum sem í hönd fóru samdi hann nokkrar sinfóníur, óperur og fleiri stórverk, þ. á m. óperurnar , Medea, Elektra, Antigóna og Lýsistrata. 2013 samdi hann tónlist við kvikmyndina Recycling Medea, en hann var þá farinn að nálgast nírætt. Eins og áður sagði var hann orðinn 96 ára gamall þegar hann lést í Aþenu 2. sept. sl. og það er til marks um þá virðingu sem hann naut að lýst var yfir þriggja daga þjóðarsorg.

Mynd: Mikis Theodorakis á götu í Amsterdam 1978. Ljósmyndari: Koen Suyk/ Anefo.

Í þættinum „Á tónsviðinu“, fim. 23. sept. kl. 14.03 verður fjallað um Mikis Theodorakis.