Líklegast að kviknað hafi í kirkjunni út frá rafmagni

23.09.2021 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Hafin er fjársöfnun til styrktar byggingu nýrrar kirkju í Grímsey. Formaður hverfisráðs segir að eindreginn vilji til þess hafi komið fram á íbúafundi í gær. Allt bendir til að kviknað hafi í kirkjunni út frá rafmagni.

Íbúar í Grímsey hittust á fundi í félagsheimilinu Múla í gærkvöld til að ræða framhaldið eftir kirkjubrunann og hvernig best væri að haga málum.

Einróma samstaða um að byggja nýja kirkju

Þó stutt sé liðið frá brunanum og margir enn að jafna sig, segir Karen Nótt Halldórsdóttir, formaður hverfisráðs Grímseyjar, mikla einingu ríkja þeirra á meðal. „Það var einróma samþykkt að við viljum byggja nýja kirkju í svipuðum stíl og sú gamla.“

Þegar hafin söfnun fyrir nýrri kirkju

Karen segir að Miðgarðakirkja eigi bankareikning og vegna fjölda fyrirspurna úr ýmsum áttum í gær hafi reikningsnúmerinu þegar verið deilt til nokkurra sem þess hafi óskað. „Þannig að það er sem sagt farin söfnun af stað fyrir Miðgarðakirkju,“ segir hún og þegar séu farin að berast framlög. „Ég er svo sem ekki í sóknarnefndinni, en mér skilst það á gjaldkera sóknarnefndarinnar að það séu komin framlög.“

„Það hefur mikið verið hugsað til okkar“

Einnig hafi komið kveðjur og stuðningur úr ótrúlegustu áttum, jafnt frá almenningi og fólki í opinberum embættum. „Grímseyingar og Grímsey eiga marga velunnara og kirkjan var náttúrulega mikið tákn og tenging í eyjunni. Grímseyingar vilja bara þakka innilega fyrir auðsýndan samhug alls staðar frá. Það hefur mikið verið hugsað til okkar og margar kveðjur sem hafa borist.“

Líklegast að kviknað hafi í út frá rafmagni

Vettvangsrannsókn á brunarústunum lauk í Grímsey í gær en rannsókn er þó ekki að fullu lokið. Strax beindist grunur að rafmagnstöflu kirkjunnar og Bergur Jónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir mestar líkur taldar á að kviknað hafi í út frá rafmagni.