Kotbóndasaga Íslands ryður sér til rúms í tölvuleikjum

Mynd: Island of Winds / Parity

Kotbóndasaga Íslands ryður sér til rúms í tölvuleikjum

23.09.2021 - 09:31

Höfundar

Leikjafyrirtækið Parity sendi fyrir helgi frá sér fyrstu kitluna fyrir tölvuleikinn Island of Winds, eða Eyju káranna, sem á að koma út á næsta ári.

Kitlan fyrir leikinn hefur fengið yfir 140 þúsund áhorf og góðar viðtökur. Island of Winds er innblásinn af íslenskri sögu og landslagi. Hann gerist á 17. öld á tímum galdrafársins, sem María Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Parity, segir bjóða upp á margt nýtt en í senn kunnuglegt í tölvuleikjum.

„Við vorum búin að fá nóg af víkingum í tölvuleikjum, Óðni og Þór og norrænni goðafræði,“ segir María. „Við vildum segja sögu sem við könnuðumst við og þá fórum við að hugsa um galdrafárið, sem gerist einmitt á 17. öld. Þetta er saga sem er ekkert notuð það mikið í bíómyndum heldur. Þetta er tími stóradóms og galdrafársins og það vantaði að segja þessa kotbóndasögu Íslendinga þar. Við trúðum ennþá mikið á álfa, huldufólk og tröll á þessum tíma, þannig að þær kynjaverur eru líka í tölvuleiknum.“

Það vekur athygli að kitlan er öll á íslensku og segir María að þau hafi með því viljað kanna hvaða viðbrögð það fengi. „Þessi kitla var prufa til að sjá hvort fólk yrði reitt yfir þessu, en aftur á móti er meiri spenningur. Þannig að við erum búin að taka lokaákvörðun um það að allt tal í leiknum verði á íslensku.“

Kristján Guðjónsson ræddi við Maríu Guðmundsdóttur í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur siglir á ný mið og semur tónlist fyrir tölvuleik

Tækni og vísindi

Fyrsta tölvuleikjafyrirtækið á markað

Pistlar

Hvað er svona merkilegt við þennan nýja heim?

Neytendamál

Hætta sölu á umdeildum tölvuleik