Helmingur allra ofbeldisbrota eru heimilisofbeldisbrot

23.09.2021 - 11:36
Mynd með færslu
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs. Mynd:
Helmingur allra ofbeldisbrota sem komið hafa til meðferðar lögreglu frá byrjun árs 2020 eru heimilisofbeldisbrot. Rúmlega fimmtán hundruð heimilisofbeldisbrot komu á borð lögreglunnar á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til ágústloka 2021. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Heimilisofbeldi úti um allt samfélagið

Af brotunum flokkast 31 til stórfellds ofbeldis og í 199 tilfellum snúast málin um að lífi, heilsu eða velferð fjölskyldumeðlims hafi endurtekið verið ógnað með alvarlegum hætti. 

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Kvennaathvarfsins, segir að tölurnar komi sér ekki á óvart. „Við vitum auðvitað að heimilisofbeldi er þarna úti um allt samfélagið og það hefur verið mikil vitundarvakning um að fólk leiti sér aðstoðar, eða að fólk í kring skipti sér af, þannig að nei, það kemur í rauninni ekki á óvart,“ segir hún. 

Tíu til tuttugu koma til dvalar í hverjum mánuði

Tíu til tuttugu konur koma til dvalar í Kvennaathvarfinu í hverjum mánuði og á hverjum degi dvelja þar að meðaltali tólf konur og ellefu börn. Þar að auki sækjast um það bil þrjátíu konur eftir viðtali eða ráðgjöf í hverjum mánuði.

Tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi hefur fjölgað á síðustu árum og þær voru fjórðungi fleiri á fyrri helmingi þessa árs en að meðaltali á fyrri hluta síðustu fimm ára.

Faraldurinn gerði konum erfitt að komast burt

Tilkynningum fjölgaði sérstaklega þegar kórónuveirufaraldurinn skall á en Sigþrúður segir að komum í Kvennaathvarfið hafi ekki fjölgað í takt við það, þótt fleiri hafi sóst eftir stuðningi og ráðgjöf. 

„Komum í dvöl fjölgaði ekki milli ára. Það var kannski alveg viðbúið að í heimsfaraldri og öllu sem gekk á á síðasta ári var erfitt að slíta sambandi og flytja inn á neyðarathvarf. Ég held það megi kannski segja að það séu sömu áhættuþættir sem leiða til aukins ofbeldis, eða auka hættuna á ofbeldi inni á heimilum, og sem gera það erfitt fyrir konu að slíta sambandi,“ segir Sigríður. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV